16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Magnús Torfason:

Það er tvennt, sem hér er rætt um. Annarsvegar skipun svonefndrar skipulagsnefndar. Hinsvegar hvort veita skuli nefndinni það vald, sem lagt er til í frv. Að því er snertir skipun n., þá mun ég láta það atriði hlutlaust. Ég mun ekki kasta steini að stj., þó að hún hafi skipað hana á slíkum tímum sem þessum. Í sjálfu sér má jafnvel líta svo á, að hún hafi sýnt þarna dálítinn búhnykk. Í gamla daga, þegar höfðingjarnir reistu sér hús þar sem langt var til aðdrátta, höfðu þeir þann sið að kaupa sér brúkunarhross á haustin, fyrir næsta vor. Það er einmitt þetta, sem stj. hefir gert. Og þá er ekki nema sjálfsagt, að hún hafi valið sér góða dráttarhesta.

Þá virðist og ekki nema eðlilegt, að stj. hafi fengið sér nokkra uppbót, eða aðstoð, þegar þess er gætt, að þetta er fyrsta þingið, sem skipað er uppbótarmönnum. Hún hefir því ekki farið nema að dæmi Alþ. sjálfs, með því að bæta sig þetta upp. Það verður því að teljast afsakanlegt og jafnvel virðingarvert, að hún skyldi fé sér þessa aðstoð.

Hitt atriðið er það, hvort rétt væri að fá n. þessari það vald, sem hér er farið fram á henni til banda. Að því er það snertir skal ég strax lýsa því yfir, að þar er ég ósammála frumvarpinu. Má vera, að það sé sakir þess, hversu ég er orðinn gamlaður. En sakir aldurs míns þá ber og þess að gæta, að ég hefi öðrum fremur haft ástæður til þess að kynnast stjórnsögu þjóðarinnar nokkuð aftur í tímann og draga ályktanir af þeim atburðum, sem sagan getur um og lífsreynslan ein getur kennt. — Þetta, að auka vald nefndarinnar svo mjög sem hér er farið fram á, er nýmæli, sem ég verð að telja mjög varhugavert. Ég sé nefnilega ekki annað en að hér sé gengið á vald þingsins, sem það eitt hefir, samkv. 34. gr. stjórnarskrárinnar, en hún hljóðar svo: „Hvor þingdeild getur skipað nefndir innan deildar þingmönnum, til að raunsaka mikilvæg mál, er almenning varða.

Þingdeildin getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum“.

Þetta er ábyggilega einn dýrasti gimsteinninn í stjórnarskrá okkar. Með þessu ákvæði er sagt hvorki meira eða minna en það, að það sé Alþingi, sem stundi öllu ofar í þessu landi. Að allir skuli þingvaldinu lúta. Hér er Alþingi gefið vald til þess að mega kalla alla þegna þjóðfélagsins til þess að standa sér reikningsskap. Ég veit nú ekki, hvort menn hafa athugað, að þetta vald er þinginu einnig getið gagnvart stjórninni. Því er gefið þetta vald til þess að geta haft hömlur á ofsamönnum, sem vilja traðka á rétti þess. Þessu valdi hefir einu sinni verið beitt (1911), og það var einmitt gagnvart stjórninni. Ég verð því að telja mjög viðurhlutamikið, ef nú á að fara að framselja þetta vald mönnum, sem ekki einu sinni eru allir þingkjörnir, þar sem stjórnarskráin kveður svo á, að þingmenn einir megi skipa þá nefnd, er má fara með þetta vald, og hún megi aðeins starfa á meðan þingið situr. Sama daginn og þingi slítur fellur vald hennar niður. Þetta þýðir það, að nefndin skuli starfa undir umsjá þingsins, svo þingið geti jafnan tekið í taumana, ef þörf krefur. Nefnd þessi á og að vera hlutfallskosin, sem þýðir það, að þingflokkunum er gefinn kostur á að fylgjast með öllu starfi hennar. Með þessu er fengin mikil trygging fyrir því, að málin séu athugað alhliða og þessu valdi ekki misbeitt. Hér eru því settar miklar skorður gegn því, að farið sé gálauslega með þetta vald. Það kemur því óneitanlega nokkuð undarlega við, að hér skuli lagt til, að utanþingsmenn fái heimild til þess að fara með þetta dýrmætasta vald, sem Alþ. eitt má hafa samkv. stjórnarskránni. Og meira en það; Alþingi er gert alveg áhrifalaust á starf þessara manna.

Í umr. þeim, sem hér hafa farið fram í kvöld, hefi ég ekki heyrt nein rök færð fram fyrir því, að það sé rík nauðsyn fyrir nefndina að fá það vald, sem hér er farið fram á henni til handa. Það er aðeins sagt í nál., að það sé nauðsynlegt fyrir hana að fá þetta vald, en ekki færð nein ástæða fyrir því, hvers vegna það sé nauðsynlegt. Mér er líka næst að halda, að við nánari athugun sjái hæstv. ríkisstj., að þessa sé ekki mikil þörf. Hún getur skipað embættismönnum að gefa þær skýrslur, sem hún vill fá, og ennfremur mun mega vænta þess, að einstaklingar gefi með fúsum vilja þær upplýsingar, sem n. kann að óska, þar sem þær eiga að vera til þess, að finna sem hagkvæmust ráð til þess að bæta atvinnuvegi landsmanna.

Það skyldi enginn taka orð mín svo, að ég sé að væna nefndarmennina um það, að þeir myndu misnota þetta vald, þó að þeir fengju það. Það, sem fyrir mér vakir, er það, að ég vil ekki, að Alþ. gefi neitt fordæmi í þessum efnum fyrir eftirkomendurna. Ég er hræddur við ýmsa öfgaflokka, sem nú eru að skjóta upp höfði hér, og hafa þegar náð sterkum tökum annarsstaðar. Sumir kunna nú að halda, að það sé langur dagur þangað til þurfi að óttast það, að slíkt harkalið nái völdum hér, en ég er ekki á þeirri skoðun, og byggi ég það sérstaklega á því, að nú nýlega fór fram kosning meðal ungra menntamanna hér við háskólann. Þrír listar kom fram við þá kosningu. Niðurstaða þessarar kosningar varð sú, að öfgaflokkarnir fengu sameinaðir 98 atkv., en listi lýðræðismanna aðeins 48 atkv. Nú er það víst, að þessi unga æska, sem að kosningu þessari stóð, á eftir að verða leiðtogi þjóðarinnar. Það er því alls ekki víst, að mjög langur tími liði þangað til þetta harkalið verður ofan á hér, en ég sem lýðræðismaður vil ekki losa svo mikið um þá múra, sem við höfum til varnar þessari hættu, að koma megi þar að litla fingri, hvað þá meiru.

Síðan við komum á fundinn hefir verið útbýtt brtt. þess efnis, að n. þessi verði hlutkosin. Ég hefi ekki borið mig saman við samflokksmenn mína um till. þessa, en mér virðist fljótlega á litið, að nokkru nær væri að samþ. frv., ef slík breyt. kæmist að.