16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Hv. 2. landsk., flokksbróðir minn hér í d., hefir talað um hina formlegu hlið málsins, og mun ég á þeim fáu mínútum, sem ég hefi til umráða. víkja að efnishlið þess.

Þá er fyrst að athuga, hver er tilgangurinn með stofnun þessarar n., sem á að veita svo viðtækt rannsóknarvald, og hvað miklar líkur eru til þess, að starf hennar geti orðið til þjóðþrifa.

Eins og menn muna var lögð mikil áherzla á það af jafnaðarmönnum, þegar n. var skipuð, að hún ætti að vinna að framgangi stefnumála flokksins samkv. 4 ára áætluninni. Að vísu munu framsóknarmenn segja, að áhrifa muni einnig gæta frá þeim í störfum og ályktunum nefndarinnar, því opinberlega hafa þeir enn ekki viljað kannast við, að þeir væru jábræður sósíalista í öllum greinum. Hv. þm. Mýr. var hér rétt áðan að reyna að þvo sig og flokksbræður sína hreina af öllu samneyti við sósíalista. Honum er nú svo lagin þessi þvottur, hann hefir iðkað hann hér á þingi um alllangt skeið og tekizt vonum framar. En eins og menn sjá er þó eins og að einhver óhreinindi af samneytinu við sósíalista vilji alltaf loða við hann áfram.

Til þess nú að sýna, hvað þeir framsóknarmenn væru tárhreinir af öllu samneyti við sósíalista, taldi hann upp nokkur atriði úr 4 ára áætlun sósíalista, þau atriðin, sem eru svona helzt almenns eðlis og sósíalistar hafa tekið með til þess að punta dálítið upp á kramið og svo til þess að tæla framsóknarmenn í beddann, sem þeir vissu, að voru nógu grunnhyggnir til að gleypa agnið með þessari beitu á króknum. En valið á mönnum í n. tekur af allan vafa í þessu efni. Til þess að tryggja sinni stefnu fullan sigur í n. hafa Alþýðuflokksmenn fengið meiri hl. n. úr sínum flokki, og formaður nefndarinnar er varaformaður Alþýðuflokksins, Héðinn Valdimarsson, 2. þm. Reykv.

Ef mönnum finnst þetta ekki nægileg sönnun fyrir því, að stefna sósíalista verði ráðandi í störfum n., þá þarf ekki annað en kynna sér, hvaða áhrif þeir hafa haft á framsóknarmenn síðan samsteypustjórn þeirra var mynduð á síðastl. sumri. Ég mun einungis taka fá dæmi af mörgum, og þá helzt þau, sem snerta landbúnaðinn, því þar verður átakanlegust eymd framsóknarmanna, þeirra manna, sem telja sig fulltrúa bændanna.

Milliþingan. í afurðasölumálunum, sem skipuð var af fyrrv. atvmrh. Framsóknarflokksins, Þorsteini Briem, samkv. þáltill. frá Jóni í Stóradal, samþ. á síðasta þingi, skilaði núv. stj. frv. um sölu mjólkur og rjóma og öðru um sölu sláturfjárafurða á innlendum markaði. Bæði þessi frv. gaf stj. út sem bráðabirgðalög samkv. ákveðnum óskum frá milliþn. En bæði urðu þau fyrir allverulegum skemmdum í meðferð stj. Umráðaréttur á meðferð og sölu afurðanna var dreginn meir úr höndum framleiðenda og færður yfir til neytenda, samkv. ákveðinni till. Alþýðuflokksins, og í framkvæmdinni voru framsóknarmenn kúgaðir til að lækka verð mjólkurinnar í Rvík áður en minnstu líkur voru til, að bændur fengju framleiðslukostnað sinn endurgreiddan. Þannig er farið með þann hagnað, sem vinnst við skipulagningu sölunnar, þann hagnað, sem bændur hafa heimtingu á að fá allan og óskertan, svo að búskapur þeirra geti borið sig.

Við framkvæmd kjötsölulaganna hefir ekki verið gætt hagsmuna þeirra, sem erlenda markaðinn verða að nota, betur en svo, að þrátt fyrir það þótt þeir, sem selja á Rvíkurmarkaði, fái yfir 20 aur. hærra verð fyrir hvert kjötkíló, þá verða hinir að sætta sig við allt að 10 aur. lækkun frá því í fyrra. Svo skammt hrekkur verðjöfnunarsjóður til þess að jafna mismuninn.

Ég bið afsökunar á, að ég brá mér til að ná í þingskjal til stuðnings máli mínu.

Nú fyrir tveimur dögum voru til umræðu í hv. Ed. bæði kjötsölulögin og mjólkursölulögin. Þá lá fyrir brtt. frá Þorsteini Briem, sem ég skal með leyfi hæstv. forseta lesa hér upp:

„Nú verður verð á útfluttu kjöti tilfinnanlega lágt, svo að verðjöfnunarsjóður hrekkur hvergi nærri til að bæta upp verð útflutta kjötsins til nokkurs samræmis við kjötverð á innlendum markaði, og er ríkisstjórninni þá heimilt að greiða úr ríkissjóði framlag til verðjöfnunarsjóðs til aukaverðuppbótar á útflutt kjöt, allt að þeirri upphæð, er aðrar tekjur sjóðsins nema það söluár“.

Þessi till., sem er svo sjálfsögð eftir að þær upplýsingar eru fengnar um afkomu þessarar vörusölu bændanna, að ekki gat nokkur ástæða verið sjáanleg fyrir nokkurn þm. að greiða atkv. á móti svo sjálfsögðum styrk til bænda. En hvað skeður? Stjórnarliðið, allt saman óskipt, leggst á móti þessari sjálfsögðu till. með stuðningi þeirra manna úr Sjálfstæðisfl. hér í Rvík, sem tregastir hafa verið til þess að líta með velvild á hagsmunamál bænda.

Sama dag var til meðferðar í Ed. brtt. við mjólkursölulögin frá Þorsteini Briem og Pétri Magnússyni. Sú till. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við ákvörðun á útsöluverði mjólkur og mjólkurafurða skal sérstaklega hafa hliðsjón af kostnaði við framleiðsluna á hverjum tíma og þess gætt, að framleiðendur njóti að fullu þess hagnaðar, er leiða kann af breyttri tilhögun mjólkursölunnar, að minnsta kosti að svo miklu leyti sem þarf til þess, að mjólkurframleiðslan fái borið sig. Í því skyni skal við ákvörðun útsöluverðsins stuðzt við verðvísitölur, er sýni aðalkostnaðarliði framleiðslunnar ár hvert, eftir nánari ákvæðum, er ráðherra setur í reglugerð“.

Hér er í raun og veru aðeins nokkuð hert á ákvæðum, sem eru í bráðabirgðalögunum um mjólkursölu og var lögð áherzla á í milliþingan. í afurðasölumálinu, að allt, sem ynnist af skipulaginu á sölu og meðferð mjólkur, gengi óskipt til bænda, þangað til sýnt væri, að þeir fengju það hátt verð fyrir mjólkina, að búskapur þeirra gæti borið sig.

Hvaða fulltrúar bænda mundu nú leyfa sér að greiða atkv. á móti svona sjálfsagðri till.? Að óreyndu getur maður ekki ímyndað sér, að neinn þeirra gerðist svo djarfur. En hvað skeður? Nákvæmlega það sama og í kjötsölumálinu. Þeir fylgdust óskiptir að því að drepa þessa till. með stuðningi hinna sömu Rvíkur-sinnuðu sjálfstæðismanna.

Þeir hafa stundum verið að tala um það áður fyrr, framsóknarmenn, að það væri ekki vansalaust að vera með máli, sem sjálfstæðismenn stæðu að. En Framsóknarfl. á þingi nú í þetta skipti veigraði sér ekki við að fylgja þeim mönnum að málum, sem fjandsamlegastir hafa verið í þeim flokki gagnvart bændum landsins. Svona er nú komið um bændavináttu Framsóknarfl. Þeir verða að draga hina þungu hlekki, sem sósíalistar hafa hengt á þá. Þetta eru fyrirskipanir, sem sósíalistar hafa rétt að þeim, og þeim fylgir það, að ef þeir ekki beygja sig og verða góðu börnin, þá fá þeir ekki að vera í stjórn lengur. Og Framsóknarfl. hugsar ekki fyrst og fremst um það, að bera fram umbótatill. til hagsmuna bændum, til þess að létta af kreppunni í búskapnum hjá bændum. Nei, hann hugsar meira um það að lækna kreppuna, sem er í stjórnarherbúðum hans, að hlúa sem bezt að möguleikum þeirra til að halda í völdin. Það er þeim meira virði en að rétta bændum, sem þeir eru kosnir fulltrúar fyrir, hjálparhönd, þegar harðast blæs á móti. En hvernig mun svo fara um sjálfstæði framsóknarmanna gagnvart sósíalistum í öðrum málum, þegar þeir eru svo svínbeygðir fyrir þeim í þessum aðalhagsmunamálum bændanna? Ég hefi ekki trú á, að þeir reynist þar djarfari en þeir hafa reynzt í þessu máli. Og ég trúi ekki á viðreisn atvinnuvega þjóðfélagsins á vegum sósíalista. Ég get því ekki léð mitt atkv. til að styðja endanlega löggjöf um þá nefnd, sem nú hefir verið stofnað til með þeim hætti, sem gert hefir verið. Ég get ekki stutt neina löggjöf, sem fer í þá átt að veita þessari n. það rannsóknarvald, sem á að gera með því frv., sem fyrir liggur. Hæstv. fjmrh. hvað þessa n. eiga að finna nýjar leiðir til þess að beina atvinnulífi þjóðarinnar inn á. Það er svo. Hvað hefir stj. gert? Hvað hafa þessir „alliceruðu“ flokkar gert í þessu efni? Jú, þeir hafa verið að reyna að beina a. m. k. einni stétt landsmanna inn á aðra leið en þá, sem hún hefir verið á. Það vita allir, að bændur hafa átt við hin örðugustu kjör að búa og að þeir hafa ekki getað lifað af atvinnurekstri búa sinna. Síðastl. sumar beitti stj. sér fyrir hækkun á almennu kaupi, og framsóknarmenn og stjórnin töldu höfuðkostinn við kauphækkunina, að bændur fengju meira kaup. Það átti að benda bændum á það, þeir ættu ekki að vera að hokra við þennan búskap, sem ekkert gæfi af sér, þeir ættu að yfirgefa hann og fara til kaupstaðanna og gerast daglaunamenn. Þarna er nú tilraun stjórnarinnar til að beina atvinnulífinu inn á nýjar brautir. Sósíalistar og framsóknarmenn álíta þetta holla stefnu, enda þótt hún í reyndinni leiði út í fjárhagslegt öngþveiti. En þegar svo er komið, trúa þeir, að þeir geti beizlað þjóðina svo rækilega, að þeir fái ráðið við hana að öllu leyti.

Hæstv. ráðh. sagði, að það skipti minnstu máli, hvort atvinnutækin væru talin eign einstaklinga, bæjarfélaga eða sveitarfélaga. Þetta er sjálfsagt svo í hans augum og hans flokksmanna. En þessi setning er nú bara brot úr þeirri kenningu, sem verið er að reyna að læða út til þjóðarinnar í heild, að það skipti minnstu máli, hvort nokkuð sé hugsað um það að safna verðmætum til þess að eitthvað sé hægt að framkvæma. Það má enginn geta neitt framkvæmt.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það er nú þröngt um markað fyrir innlendar afurðir. En það er þó að minni hyggju ekki eins svart fyrir dyrum eins og hann vildi segja. Hann nefndi, að við gætum ekki flutt til Noregs nema 6 þús. tunnur af kjöti. Þannig má samkv. norsku samningunum flytja á næsta ári 8500 tn. og þar að auki 1500 tunnur á ári til skipa. En þessi möguleiki fer þverrandi sem nemur 1500 tunnum á ári. En auk þess, sem við höfum flutt kjöt fryst til Englands, höfum við selt fryst kjöt til Norðurlanda. Og ég hygg, að sá útflutningur hafi numið a. m. k. helmingi af því, sem leyfilegt er að flytja til Noregs á næsta ári. Og möguleikar um þann markað eru áreiðanlega vaxandi, þó að ekki sé hægt að fullyrða neitt um, hvernig hann muni gefast í framtíðinni. Og enn er eftir að leita eftir víðtækari markaði fyrir framleiðslu landbúnaðarafurða. Það er alls ekki hægt að segja, að með því litla, sem enn er gert í þessa átt, takist ekki að fullnægja þeirri framleiðslu, sem nú höfum vér.

Hæstv. ráðh. sagði, að vonina um fjárgróða yrði að taka af einstaklingum til hagsbóta fyrir fjöldann. Hvaða von um fjárgróða er hægt að taka frá bændum eins og nú árar? En það er eins og stjórnarflokkarnir öfundi bændur fyrir þann gróða að mega selja mjólk fyrir neðan framleiðsluverð; það má ekki nota skipulag mjólkursölunnar til að færa hlut bænda feti nær framleiðslukostnaði hjá þeim. Þegar átti að girða fyrir gróðavonir, þótti rétt að byrja á bændum. Ég skal þá víkja örlítið að þeirri brtt., sem liggur fyrir frá hv. þm. V.-Ísf. Mér finnst dálítið undarlegt, að hann tekur ekki nema annan flokkinn af tveim, sem urðu útundan við nefndarskipunina. Hann sagðist ekki gera það af því, að hann hefði ekki atkvæðamagn til þess að koma manni í n. En hvers vegna er hann ekki sjálfum sér samkvæmur og gerir till. um, að flokkarnir skuli skipa nefndina eftir atkvæðamagni sínu á þingi? Annars skal ég ekki segja margt um þetta; það skiptir ekki svo miklu máli, þó að þessi bót væri sett á götótta flík. En það, sem mér finnst vera stærsta hnefahöggið í andlit bænda um stofnun þessarar n. og skipun í hana, er það, að nú hefir það skeð, sem aldrei hefir skeð áður í nær hálfa öld, að fram hjá Búnaðarfélagi Ísl. hefir verið gengið, þegar verið er að tala um umbætur á sviði landbúnaðarmálanna. Það er þessi hæstv. núv. stj., sem verður sú fyrsta stjórn til að ganga framhjá þessum merkasta aðila landbúnaðarmálanna. E. t. v. á hæstv. stj. eftir að uppskera verðugt þakklæti bænda fyrir þá lítilsvirðingu, sem hún hefir sýnt félagsskap þeirra í þessum sökum. Það er talað fallega um það, að þessi n. eigi að gera eitthvað stórt fyrir bændur landsins í skipulagsmálum um framleiðslu afurða þeirra. En við Búnaðarfél. Ísl. er ekki lítið, þó að það hafi allt frá því það var stofnað átt frumkvæðið að öllu því, sem hefir orðið til hagsbóta á sviði landbúnaðarmálanna.

En það er svo sem ekki í þessu eina stórmáli, sem þessir háttvirtu herrar hafa lítilsvirt Búnaðarfélag Ísl. Þeir hafa kippt því út úr stjórn afurðasölumálanna, þrátt fyrir það, þótt milliþingan. í landbúnaðarmálum legði til, að það ætti þar fulltrúa, og þrátt fyrir till. kaupfélagsstjórafundarins, sem haldinn var síðastl. vetur í Rvík.

Þannig er afstaða hæstv. núv. stj. gagnvart aðalstofnun búnaðarins í landinu.