21.11.1934
Neðri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Forseti (JörB):

Það er misskilningur hjá hv. 8. landsk. að hér liggi fyrir deila um það, hvort þm. séu atkvæðisbærir. Milli forseta og þm. getur orðið ágreiningur um það, en eigi milli þm. innbyrðis. Til þess að benda á það, hvort eigi skiptir máli, ef þm. neita að greiða atkv. af ástæðum, sem forseti tekur ekki gildar, skal ég taka dæmi.

Ef 18 menn eru á fundi, 16 eru með málinu, en 2 fást ekki til að greiða atkv., þá er málið þar með fallið, ef atkvgr. er ekki frestað, þar sem meira en helmingur þm. fæst ekki til þátttöku í atkvgr. En ef annar af þeim tveim, er sátu hjá, greiddi atkv. móti málinu, þá væri það samþ. Sá telst ei taka þátt í atkvgr., sem situr hjá. Annars býst ég við, að menn græði ekki á frekari umr. um þetta.