21.11.1934
Neðri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Hannes Jónsson:

Ég vil taka það fram, að það er ekki til neins að deila um það, hvort þetta hafi verið samþ. Forseti hefir úrskurðað, að svo sé, og því verður ekki breytt. Það er sama og lögleg samþykkt.

Hitt finnst mér athugunarvert, ef misræmi er í úrskurðum forseta. Ég vil því beina því til hæstv. forseta, að forsetar beri sig saman um svona hluti, svo að shlj. úrskurðir séu kveðnir upp og byggðir á sömu forsendum. Hvað rétt sé í þessu máli er viðurkennt af forseta, hitt virðist mér, að hæstv. forseti, með því að segja, að því meira sem um þetta sé rætt því fjær séu menn því að sjá hvað rétt sé, sé farinn að efast um það sjálfur, að hann hafi kveðið upp réttan úrskurð.