21.11.1934
Neðri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Magnús Torfason:

Ég vildi benda á eitt atriði í þessu sambandi. Eftir því sem sumir vilja skilja þetta á það að vigta meira að greiða ekki atkv. en að greiða atkv.

Ef 16 menn eru með einhverju máli og 2 á móti, þá er það samþ., en ef þessir 2 sitja hjá, þá er að fellt. Þetta nær vitanlega ekki nokkurri átt. Áður en þingsköpunum var breytt 1915, var engin leið til þess að losna við að greiða atkv. önnur en sú, að ganga út úr d. Um þetta er frægt dæmi, er Jón Þorkelsson eldri vildi ekki greiða atkv. og gekk út og kvað dragsúg í d. Það er náttúrlega hægt að láta vera að skila seðlum þegar atkvgr. er skrifleg, hitt var óviðkunnanlegt, að þm. færu út, ef þeir eigi vildu greiða atkv., og þess vegna var þessum ákvæðum breytt.