07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Ég ætla fyrst að svara nokkrum atriðum í ræðu hv. þm. Hafnf. Hann brást nokkuð reiður við minni ræðu og sagði, að ég hefði staðhæft, að hann hefði farið með dylgjur. Ég vil vekja athygli hans á því, að hann sagði í sinni fyrri ræðu, að andstaða okkar sjálfstæðismanna gegn þessari n. byggðist á því, að við vissum, að það væru huldar veilur í einkarekstrinum, og það þyrðum við ekki að láta koma í dagsljósið. Þetta kalla ég, með allri virðingu fyrir hv. þm., dylgjur, og ekkert annað en dylgjur, sem ég vil hér með vísa heim til föðurhúsanna.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að ég hefði verið að víkja að aldri hans. Það var rétt. Ég benti honum á það, að það væru aðrir eldri og reyndari menn í þessari n. en hann, og ég byggist við, að svo færi, að þeir mundu meiru ráða þar heldur en hann. Hvað viðvíkur aldri þessa hv. þm., þá skal ég fúslega viðurkenna það, að ég álít hans æsku vera hans prýði. Ég fór aldrei neitt út í að draga neitt í efa orð þessa hv. þm., vegna þess, að hann skorti reynslu, svo að það er alveg óþarfi fyrir hann að víkja sér að mér og vilja gera gys að mér fyrir það, að ég hafi ekki fulla reynslu. En viðvíkjandi þeirri reynslu, sem ætti mestu að ráða í þessu máli, þar sem verið er að ræða um skipulagsnefnd atvinnumála, þá þori ég alveg óhikað, enda þótt ég sé nokkuð yngri en hv. þm., að tefla fram minni reynslu og þekkingu á sviði atvinnumálanna gegn hans reynslu.

Þá sagði hv. þm. Hafnf., að það, sem ég hefði tilfært um vald ensku nefndarinnar, til þess að rannsaka kolaiðnaðinn, sýndi það, að hún hefði samskonar vald og þessi skipulagsnefnd á að fá. Það er mikið rétt, að í sjálfu sér er valdsvið þeirra nokkuð líkt, en það eru bara verkefni þessara tveggja nefnda, sem eru gerólík, þar sem enska nefndin fékk það verkefni að rannsaka aðeins eitt stórt ágreiningsmál, og vald hennar var strax bundið við það eina verkefni. En ef við hinsvegar lítum á verkefni skipulagsnefndarinnar, — og nú er ég kominn að svo miklu ræðuefni, að ef hæstv. forseti hefir ákveðið að fresta fundi innan skamms, þá óska ég að fresta því, sem eftir er af ræðu minni, þar til fundi verður haldið áfram seinna í kvöld. Fundarhlé.

Ég hafði áður lýst því takmarkaða verksviði, sem brezka n. hafði, sem átti að rannsaka hag kolaiðnaðarins. Ég gerði það til samanburðar við það mjög svo yfirgripsmikla verksvið, sem skipulagsn. atvinnumála á að hafa. Í 1. gr. er mælt svo fyrir, að n. eigi að rannsaka fjármál ríkis og þjóðar, og hverskonar atvinnurekstur í landinu, þ. e. a. s. fjármál allra einstaklinga þjóðfélagsins og atvinnurekstur þeirra. Hún á að hafa vald til þess að skyggnast niður í hverja kistu og fara niður í vasa hvers manns til athugunar á fjárreiðum hans. Og þar sem hún á að rannsaka hverskonar atvinnurekstur í landinu, nær verksvið hennar frá því smæsta til hin, stærsta. Undir valdsvið hennar heyrir því jafnt sala blaðadrengjanna hér á götunum og atvinnurekstur í stórum stíl, eins og þeim, er á sér stað hjá hv. þm. Hafnf. Hvorttveggja þetta, og allt þar á milli, getur þessi n. rannsakað. Og samkvæmt orðalagi 1. gr. frv. fellur undir verksvið n. yfirleitt allt milli himins og jarðar, og má n. því láta það af því til sín taka, sem þeir jarðnesku menn, sem í n. eru, ná til.

Þá sagði hv. þm. Hafnf., að við sjálfstæðismenn yrðum að gefa yfirlýsingu þess efnis, að við vildum vinna í n. „af heilum hug“. Mér þykir þetta allundarlegt eftir yfirlýsingu hæstv. atvmrh. við 1. umr. málsins, um að sjálfstæðismenn væru ekki færir um það að starfa í n. Ég get ekki skilið þessi ummæli á annan veg en þann, að við þurfum að gefa yfirlýsingu um, að við ætlum að víkja frá okkar stefnu. En hann mætti þá lengi bíða, því að slíka yfirlýsingu munum við aldrei gefa. Sjálfstfl. er ekki svo óðfús að taka þátt í störfum þessarar n., að hann vilji vinna það til að svíkja sína kjósendur. Við munum halda áfram að berjast gegn því þjóðnýtingarbrölti, sem lýsir sér í skipun þessarar n. og verkefnum hennar. En við álítum það beina skyldu stjórnarflokkanna áður en þeir láta til skarar skríða með þá þjóðnýtingu, sem hér er stefnt að, að bera málið undir kjósendur. Við getum gengið inn á að lofa Rauðku að lifa á meðan, en við erum ekki í vafa um, hver dómur kjósendanna yrði. Ég skal láta þess getið, að einn merkur framsóknarmaður sagði við mig, að þeir viltu gera bandalag við okkur á þann hátt að lofa Rauðku að lifa, en drepa öll afkvæmi hennar. En við teljum óþarfa að láta Rauðku lifa, ef svo á að drepa öll hennar folöld.

Ég fer nú að þreytast á að sitja á Rauðku, því að hún er fremur óþýð, og mun ég því fara af baki. Hún verður nú væntanlega leidd inn í hv. Ed. Ég vona að hún fái þar gott fóður, verði sett í hesthús og látin vera þar til eilífðar.