11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það hefir heyrzt um þetta mál eða frétzt til þess bæði í hv. Nd. og útvarpinu, en önnur kynni höfum við í þessari hv. d. ekki af því. Ég bjóst þess vegna við, að hæstv. stj. mundi sýna því þá lotningu að fylgja því úr blaði með nokkrum vel völdum orðum hér í hv. d. En þessu er nú ekki að fagna, og finnst mér það óviðkunnanlegt, að við hér fáum ekkert að vita um tilefni og væntanlegt starf þessarar n.

Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar ekki um annað en það, hve víðtækt vald þessi skipaða n. eigi að fá til þess að krefjast ýmiskonar upplýsinga. Mér finnst óviðkunnanlegt, að 1. umr. um frv. fari svo fram, að ekki sé minnzt á nauðsyn þessarar n., og þó ég tali stutt, þá tel ég rétt, að frv. sé nokkur sómi sýndur. Það eitt út af fyrir sig, að einmitt þetta mál var valið í hv. Nd. til þess að verða rætt í útvarpinu, bendir ótvírætt á það, að þetta er mál, sem búast má við, að þjóðin vilji fylgjast með. Þetta eitt sýnir, að ærin ástæða er til að ræða málið hér, ekki einasta nefndarskipunina, heldur alveg sérstaklega það mikla vald, sem á að fá n. í hendur, og engin dæmi eru til fyrir um neinar n. aðrar en þingn., sem hafa vald til þess að spyrja hvern sem er um allt. er snertir það mál, er þær eiga að rannsaka. Engum öðrum en þingn. hefir verið gefið slíkt vald; því hefir það verið verulega dregið í efa, hvort n., sem starfar utan þings, geti fengið svo mikið vald. Var það sérstaklega einn lögfræðingur í hv. Nd., sem ræddi í útvarpinu þetta spursmál og taldi varhugavert að samþ. frv. af þeim ástæðum. Það, sem hann ræddi sérstaklega um, var ekki viðvíkjandi valdi n., heldur verksviði, hvaða ástæða væri til þess að láta slíkar rannsóknir fara fram sem þessar.

Þessi n. var skipuð 29. ágúst. verksvið hennar var að rannsaka fjármál og atvinnumál ríkis og þjóðar og gera till. til endurbóta. Það hefir komið fram, sérstaklega í öðru dagblaði hæstv. ríkisstj., því blaðinu, sem alveg sérstaklega stendur að þeim ráðh., sem n. hefir skipað, að þessi n. eigi að undirbúa það nýja skipulag á atvinnuvegum og fjárhagsmálum þjóðarinnar, sem kölluð er þjóðnýting. Í blaði þessu, sem ætla má, að viti bezt um tilgang þessara nefndarskipunar, er þessari hugsun yfir lýst sem ástæðu fyrir nefndarskipuninni, enda vita allir, að sú hugsun er orðin það teoretiska mál, sem flokkur þessa hæstv. ráðh. berst fyrir. Í útvarpinu var það rætt, hvort ætti að skipa þessa n. í þessum tilgangi.

Ef ætti að ræða það út í yztu æsar, hver ástæða væri til að skipa n. til þess að undirbúa breyt. á öllum atvinnuháttum og skipulagi þjóðarbúsins í átt til þjóðnýtingar, þá verður ekki hjá því komizt að athuga það, hvernig þessi mál hafa nú baslazt hjá okkur hingað til. Til þess þyrfti langa ræðu, ef ætti að segja þá sögu frá fyrstu tímum, og er ég hræddur um, að mér endist ekki þetta þing til þess, því ég yrði sennilega ekki búinn fyrr en eftir jól, en mér finnst ekkert á móti því, að nokkuð sé vikið að þessu efni á síðustu áratugum. Við Íslendingar höfum á síðustu áratugum gengið í gegnum meiri breyt. í þessum efnum en flestar aðrar þjóðir á sama tíma, sem stafar af því, að við urðum alllangt á eftir öðrum þjóðum í þessum efnum en það stafaði bæði af því, hve okkar land er afskekkt, og þó sér í lagi af þeim er lendu yfirráðum og einokun, sem við urðum að lúta. Þannig urðum við út undan, er þróunin gekk yfir nágrannalöndin og allan heiminn með þeirri stefnubreyt. í verzlunarmálum, er á síðari tímum ruddi sér alstaðar rúm og kölluð er frjáls viðskipti. Sú stefna, sem áður ríkti í viðskiptamálum og fleiri þjóðmálum var merkantilisminn, sem var einskonar þjóðnýting, þar sem valdhöfunum voru gefin sem allra mest ráð yfir málum þjóðarinnar. Þeim var fengin verzlunin í hendur til einskonar þjóðnýtingar, ekki til þess að þeir, sem verzlunina höfðu, skyldu græða á henni, heldur var þetta fyrst og fremst gert af umhyggju fyrir þjóðinni sjálfri. Valdhafarnir skyldu ákveða vörutegundirnar, vörumagnið, verðið, allt til blessunar og af hreinni umhyggju fyrir þegnunum. Þá var átthagabandið, sem sett var á alla menn í þá tíð, ekkert annað en þjóðnýting. Menn voru bundnir á sömu stöðum alla æfina. Ekki heldur átti þetta að vera gert í slæmum tilgangi, heldur til þess að efla hagsæld og hamingja þjóðarinnar. Hún hefir svo sem þekkzt í Norðurálfu fyrr, þjóðnýtingin, bæði í átthagafjötrum og verzlunareinokun. Hún var þá sett á af einvöldunum, en ekki með þingatkv. Þegar svo átthagabandinu og einokunarverzluninni var létt af, þá var það sú nýja kenning, sem olli því, að frjáls verzlun væri hin eina sanna þjóðnýting. Og þessi breyt. leiddi af sér mikla byltingu í lífi þjóðanna. Í stað fátæktar þjóðarinnar og þrælkunar kom vellíðan og auðsöfnun. Við Íslendingar fórum lengi varhluta af blessun þessarar byltingar, vegna þess hve lengi konungur hélt einokuninni hér, en þegar henni var loks létt af varð hér mikil breyting. Jafnvel við, sem nú lifum, þekkjum til þeirrar röskunar, við munum þá tíð, er þessi þróun var að gerast, og það er langt frá því, að henni sé lokið enn, sem eðlilegt er, þar sem feður okkar tóku við landinu í niðurlægingu einveldisþjóðnýtingarinnar. Það má nærri geta, að slík þróun gerist ekki á einum mannsaldri, en þrátt fyrir það verða allir að viðurkenna, að þjóðin hefir lyft þungu Grettistaki á síðustu áratugum í þessum efnum. Og þar sem sú viðreisn byggist á því, að atvinnuvegirnir hafa verið reknir með miklum dugnaði, getur ekki hafa verið ákaflegt sleifarlag á þeim. Einhverjar góðir þættir hafa verið í þeim atvinnurekstri. Því er ekki hægt að segja, að með mistökum og sleifarlagi hafi hin nýja stefna hafið atvinnuvegina til vegs og blómgvunar. Hvort sem er á sjó eða landi eru ávextirnir auðsæir. Það er hægt að segja, að landbúnaðurinn hafi verið seinni til framfara. Þó er á þeirri atvinnugrein orðin svo mikil framför, að það er ekki ósvipað og með fiskiveiðarnar og verzlunina, enda þótt hækkað kaupgjald og fleira hafi knúð fram þær umbætur að nokkru leyti. Þess eru nú varla dæmi, að hægt sé að nota hið gamla búskaparlag lengur með fjölda vinnufólks, sem ekki á kost á annari atvinnu en reitingsheyskap úti um flóa og upp til fjalla, sem síðan var heim fluttur á klökkum, (MG: Á Rauðku), já á þeirra tíma Rauðkum. Framfarirnar hafa orðið stórkostlegar á sjávarútveginum. Í stað þess, sem bóndinn hefir átt allerfitt uppdráttar með sínar framkvæmdir hefir sjávarútvegurinn búið við ein hin beztu skilyrði, beztu fiskimið. Ef við lítum á verzlunina, hafa framfarirnar þar ekki síður verið stórstígar. Í þeim sökum var þjóðin ákaflega fákunnandi. Einokunin kenndi mönnum ekki annað en það, að láta bykkjuna fara á sund með ullarklyfjarnar. Hún kenndi mönnum að hafa sand í ullinni og að svíkja dúninn. Það voru einu verzlunarhyggindin, sem þjóðinni voru kennd, það var það eina, sem henni var bent á. Eftir að einokuninni var létt af var hún fyrst gefin frjáls aðeins við alla þegna Danakonungs. Þá vantaði þjóðina bæði þekkingu og fjármagn til þess að taka verzlunina í sínar hendur, en smám saman tókst það þó. Verzlun landsmanna hefir skipzt í tvær greinir, annarsvegar samvinnuverzlun neytandanna og hinsvegar hin frjálsa verzlun. Það er ómögulegt annað að segja en báðar þessar greinar hafi lyft sannkölluðu Grettistaki, þar sem svo að segja öll verzlun er nú komin í hendur landsmanna, ekki aðeins smásalan, heldur líka heildverzlunin. Þó er enginn vafi á því, að mikið er eftir ógert til umbóta á atvinnu- og verzlunarmálum. Það er enginn efi á því, að Íslendingar eiga eftir að ryðja leiðir. Verzlunarstéttin þarf að senda framtakssama unga menn til þess að fylgja okkar framleiðsluvörum á heimsmarkaðinn. Ég er sannfærður um, að fleiri en Norðmenn geta selt okkar vörur til annara þjóða með góðum árangri.

Ég hefi nú flutt þennan stutta inngang vegna þess, að ef á að fara að undirbúa nýtt skipulag, vildi ég sýna, að það skipulag, sem við höfum undanfarið búið við og byggzt hefir á framtaki einstaklingsins, hefir ekki brugðizt vorri þjóð. Ég hefi sýnt fram á, að það skipulag var byggt á afnámi gömlu þjóðnýtingarinnar. Ég veit, að margir segja, að gamla fyrirkomulagið hafi verið allt annað en okkar tíma þjóðnýting. Ég skal játa það, að margt er þar nokkuð ólíkt, en þó má óhætt fullyrða það, að þeir, sem börðust fyrir fyrri tíma þjóðnýtingu settu jafnmiklar vonir á hana og nú er gert við okkar tíma þjóðnýtingu af þeim mönnum, sem trúa á hana. Og báðar þjóðnýtingaraðferðirnar hafa það sameiginlegt að vilja setja á þjóðina sem mest bönd í þágu þjóðarheilla. Það var stefna merkantilismans og það er stefna þjóðnýtingarmanna nú.

Úr því ekki er hægt að benda á, að fyrirkomulagið hafi brugðizt, verður að leita annara orsaka fyrir því, að n. þessi er skipuð, því náttúrlega verða að vera einhverjar orsakir til þess, að sett er á stofn svo valdamikil n. sem þessi. Auðvitað eru atvinnuvegirnir flestir staddir í miklum vanda nú. Flestir þeirra hafa farið fram á að fá opinberan stuðning, en eins og kunnugt er geta til þess legið ýmsar ástæður aðrar en gallar á fyrirkomulagi atvinnuveganna. Það eru utanaðkomandi ástæður, sem valda því, það er heimskreppan, sem hægt er að segja að byrji árið 1930 og fram kom hér fyrir alvöru fyrst 1931 eins og annarsstaðar í heiminum. Hún er orsök erfiðleika þeirra, sem atvinnuvegir okkar eiga nú við að búa. Þess háttar fjárkreppur koma alltaf við og við yfir heiminn, og hægt er að segja að þær séu einn af göllum hina „kapítalistiska“ þjóðskipulags, sem náttúrlega væri mjög æskilegt að losna við, ef annað verra kæmi þá ekki í staðinn. En það er náttúrlega ekki hægt að kenna okkar fyrirkomulagi um fjárkreppuna í heiminum, enda bendir ekkert til þess, að þjóðnýtingarstefnan bjargi þjóðunum í því efni. Það er engin ástæða til að ætla, að ríkisútgerð togara hefði bjargað okkur frá verðfalli sjávarafurðanna, og yfirleitt mundum við hafa átt við alla sömu erfiðleika að etja út á við, þó við hefðum búið undir fyrirkomulagi þjóðnýtingarfrömuðanna undanfarin ár. Því verður ekki heldur neitað, að erfiðleikar þeir, er við höfum nú við að búa, stafa að mjög miklu leyti af ógætilegri stjórn og óhæfilegri eyðslu á fé landsmanna á undanförnum árum, t. d. á árunum 1929 og 1930, þar sem Þt. sýna, að eytt hefir verið milljónum eftir milljónir fram yfir það, sem fjárlög heimiluðu, sem þó voru enganveginn lág. Auðvitað er engin ástæða til að ætla, að stjórn, sem fer svo ógætilega með fjármál þjóðarinnar, ég held, að óhætt sé m. a. s. að segja svo óráðvandlega með fé þjóðarinnar, ég held, að engin ástæða sé að ætla, að sú stjórn hefði farið hyggilegar með stjórn á atvinnufyrirtækjum, sem ríkið hefði átt. Ég held, að það mætti miklu frekar segja, að það hafi í rauninni verið mikil mildi, að stjórnin hafði þó ekki meira umleikis í þann tíð en hún hafði.

Það er náttúrlega eðlilegt, ef ekki er hægt að finna þær orsakir, sem gefið er í skyn, að liggi til grundvallar fyrir þessu frv., að þá verði mönnum fyrir að grafa dýpra og leita að nýjum ástæðum. Og það vill svo til, að það þarf ekki að leita lengi. Eins og allir vita hefir borizt hingað til lands fyrir nokkrum árum pólitísk stefna, sem allmikið hefir gripið um sig, það er jafnaðarstefnan. Og eitt af meginatriðum í kenningu þeirrar stefnu er þjóðnýting atvinnuveganna. Um það er ekki spurt af þeim, sem aðhyllast þá stefnu, hvort atvinnuvegirnir séu í lagi eða ólagi. Þetta er teoretiskt stefnuatriði, sem segir, að atvinnuvegirnir séu æfinlega í ólagi í kapitalísku þjóðfélagi, það skipulag sé æfinlega óalandi og óferjandi, vegna þess að ekkert skipulag sé réttlátt nema það, sem rekið sé með hagsmuni allrar þjóðarinnar fyrir augum, eins og þeir kalla það. Það má náttúrlega segja, að þessi stefna sé ekki orðin svo voldug hér á landi, að líklegt sé að hún orki því að keyra í gegn þetta frv., sem bendir til þess, að nú eigi fyrir alvöru að fara að undirbúa allsherjarþjóðnýtingu, eins og lýst hefir verið yfir af blaði jafnaðarmanna og þeim ráðh., sem n. skipaði. Þetta getur litið dálítið undarlega út, þegar við völd eru tveir flokkar, annarsvegar stærri flokkur, sem byggður er á núverandi þjóðskipulagi og framtaki einstaklingsins, hinsvegar minni flokkur, sem er fámennari bæði í þinginu og stjórninni og því ekki líklegur til að ráða mjög miklu. Til þess að átta sig fyllilega á þessu þarf maður að þekkja sögu hinna pólitísku mála hér á landi hina síðustu áratugi, því hér eru vissulega nokkur undirmál á ferðinni, sem að vísu eru nú orðin nokkuð kunn, en sem öllum eru e. t. v. ekki nægilega ljós.

Sá flokkur, sem nú má kalla aðalstjórnarflokkinn, Framsóknarflokkurinn, hefir alla sína tíð siglt undir því merki, að hann væri bændaflokkur. Þrátt fyrir alla bændavináttu hefir hann haft á sér einhvern einkennilegan blæ í augum þeirra, sem litið hafa á hann sem bændaflokk. T. d. leit út fyrir á tímabili, að það ætti algerlega að útrýma bændum úr þingliði flokksins; í þeirra stað voru kosnir skólastjórar og ýmiskonar embættismenn (JBald: Ekki að vera að skensa bændaflokkinn). Hvernig stóð á þessum einkennilegan blæ? Á því fengu menn skýringu, sem ýmsir höfðu að vísu haft hugboð um, en nú fékkst skjallega staðfest við það, að hv. núv. þm. S.-Þ. lenti í ritdeilu við einn af foringjum jafnaðarmanna hér í Rvík. Þeim unga manni rann í skap, svo hann hefir e. t. v. sagt meira heldur en ætlazt var til. Hann skrifaði grein í Alþýðublaðið, sem ég hefi ekki hér hjá mér, af því að ég hafði ekki búið mig undir að ræða þetta mál í kvöld. En hún var um það, hvaða ráð jafnaðarmenn tóku upp, þegar stefna þeirra kom fyrst hingað til Íslands. Þá voru hér fámennir kaupstaðir, lítið um iðnað og ekkert af verksmiðjum né öðrum þeim gróðrarstígum, sem jafnaðarstefnan hafði þróazt í erlendis. En hér var fjölmenn og voldug bændastétt, og var auðséð, að ef stefnan átti að ná einhverjum verulegum tökum, þá varð á einhvern hátt að véla bændur til fylgis við hana. Þá segir þessi ungi maður, að alkunnugt hafi verið, að bændur í öðrum löndum skildu vel annan þátt þjóðnýtingarstefnunnar, samvinnuhreyfinguna. Hafi þess vegna þótt rétt og vænlegt til árangurs að laða bændur fyrst til fylgis við samvinnustefnuna, beygja hana í þjóðnýtingaráttina og leiða bændur þannig til samstarfs við jafnaðarstefnuna. Það var náttúrlega auðvelt að tala um þetta, en hver vildi nú verða til þess að hengja bjölluna á köttinn? Jú, það vildi einmitt svo til, að sá var til taks, sem reiðubúinn var til að hengja bjölluna á köttinn. Greinarhöf. segir, að til þess hafi valizt einn af foringjum jafnaðarmanna, Jónas Jónsson frá Hriflu. Það er kunnugt um þann mann, sem nú situr hér á þingi sem þm. S.-Þ., að hann kom um þetta leyti heim frá útlöndum sem alsannfærður og eldbeitur jafnaðarmaður. Man ég ekki betur en stundum hafi verið lesin hér upp fyrir honum skrif hans frá þeim árum, þegar hann játaði trú sína á jafnaðarstefnuna. Segi ég þetta ekki honum til vanvirðu. Þessi áhugasami maður var nú sendur út af örkinni til þess að safna bændum um samvinnuhreyfinguna og Framsóknarflokkinn og sveigja hann síðan til samstarfs við jafnaðarmenn. Held ég, að því hafi ekki verið mótmælt, a. m. k. hefir það aldrei verið hrakið. Árangurinn af starfi þetta útsendara fór fljótlega að koma í ljós, hann varð strax framarlega í flokknum, því hann reyndist duglegur agitator. Framsóknarflokkurinn fór að sveigjast undarlega mikið í áttina til jafnaðarmanna, þar til haustið 1926, að þessir tveir flokkar sameinuðu sig um einn mann við landskjör. Maður verður náttúrlega að játa, að þetta fyrsta spor til opinberrar samvinnu var hálfgert víxlspor, því þeir töpuðu mjög í þessum kosningum. En það sýndi sig þó, að þessi tilraun var viturleg, þó hún misheppnaðist. Með henni var verið að venja bændur, sem sumir voru hálftregir í laumi, við samvinnuna við jafnaðarmenn, svo allt gengi betur þegar til alvörunnar kæmi. Svo komu almennu kosningarnar 1927, og þó þessir flokkar hefðu ekki opinbera samvinnu við þær, þá höguðu þeir svo til svo lítið bar á, að þeir spilltu ekki hvor fyrir öðrum. Svo gengu þeir saman til stjórnarmyndunar, þó ekki þannig, að jafnaðarmenn tækju þátt í stjórninni eða væru opinberlega taldir styðja hana, heldur kallað, að þeir væru „hlutlausir“. Þessari samvinnu allri hafa nú þeir menn, sem gengnir eru úr Framsóknarflokknum, lýst með mjög sláandi orðum. Hvernig Tryggvi Þórhallsson varð að kaupa jafnaðarmennina ár eftir ár, þangað til þeir loks sviku alveg 1931, eftir að hafa fengið hvert beinið öðru feitara. Á þessu tímabili var samstarfið komið það áleiðis, að óhætt þótti að starfa opinberlega með hinu keypta málaliði að þeim þörfu störfum, sem þá voru unnin. Og tíminn leiddi í ljós, að þróunin hélt áfram í sömu átt, þó að stanz yrði á samstarfinu eftir að þm. jafnaðarmanna sviku framsóknarstjórnina. Því eftir síðustu kosningar var samvinnan orðin fullkomin, og þá gengu þessir tveir flokkar saman til stjórnarmyndunar sem jafngildir stjórnarflokkar. Um stjórnarmyndunina var gert samkomulag, sem mikið hefir verið talað um. Og hvað sem annars má um það segja, þá sannaði Alþýðublaðið með tilvitnunum við að ég held hvert einasta atriði í þessu samkomulagi, að það var í fullu samræmi við fjögra ára áætlun Alþýðuflokksins og upp úr henni tekið. Það hefir ekkert að segja, þó hv. þm. Mýr. reyndi að sýna fram á í útvarpsumr. hér um daginn, að sum af þessum atriðum væri líka í stefnuskrá Framsóknarflokksins. Þar sem öll atriði samkomulagsins eru í stefnuskrá jafnaðarmanna, þá er augljóst, að þeir hafa engu þurft að slá af sínum ómengaða sósíalisma.

Að þessu öllu athuguðu sést raunverulega orsök þeirrar nefndarskipunar og þess frv., sem hér er um að ræða. Það er ekkert annað en fullkomnun þess starfs, sem hafið var þegar Jónas Jónsson, núv. þm. S.-Þ., var sendur inn í bændaflokkinn til þess að vinna hann til fylgis við jafnaðarmenn. Þessi hv. þm. er nú kominn að markinu og er að skila af sér því, sem hann hefir aflað, er að koma heim til föðurhúsanna með alla dröguna á eftir sér. Sem vottorð um það er þessi n. skipuð, til að vinna að undir- búningi þjóðnýtingar, sem er aðalstefnumál og einkenni allra jafnaðarmanna. Að þetta er verkefni n. sannar m. a., hvernig hún er skipuð, auk yfirlýsingar hæstv. atvmrh. Í henni eru eingöngu ákveðnir jafnaðarmenn, ýmist grímuklæddir eða ógrímuklæddir, ýmist með þennan eða hinn skilninginn á því, hvað þjóðnýtinn er. Þegar einhverjir minntust á, að n. væri undarlega skipuð, þá var svarað, að það væri ekki til neins að skipa sjálfstæðismenn í svona n., því þeir væru andvígir markmiði hennar eða tilgangi. Nú atvikaðist svo að samþ. var í Nd. að bæta sjálfstæðismönnum í n., skal ég ekki segja, hvers vegna það var. En hitt er víst, að það mætir mótspyrnu. Við skulum sjá, hvort ekki verður sagt hér í Ed., að það sé í ósamræmi við starf og tilgang n. að hleypa sjálfstæðismönnum inn í hana.

Ég hefi nú sýnt fram á, að orsökin til þessarar nefndarskipunar er ekki sú, að atvinnuvegir landsmanna hafi sýnt sig neitt óhæfa til þess að leysa sitt hlutverk, heldur er hún sú, að sá stjórnmálaflokkur, sem telur þjóðnýtingu atvinnuveganna sitt aðalstefnumál, hefir í svipinn náð völdunum algerlega í sínar hendur. Þó hann sé í samstarfi við flokk með öðru nafni breytir það engu, þar sem þeir eru alveg sammála í þessum efnum. Ég er þannig andvígur þessari nefndarskipun, vegna þess að ég er andvígur verkefni hennar. En þó jafnvel að n. hefði verið skipuð til þess að safna skýrslum og undirbúa einhverja breyt. á atvinnuháttum, sem að liði ættu að verða, þá hefir skipun hennar verið þannig framkvæmd, að af henni er sáralítils að vænta, sem gagnlegt mætti heita. Þó ekki sé hægt að segja um marga af nm., að þeir séu almennt talið óstarfhæfir menn, þá virðist liggja í augum uppi, að þeir hafa verið valdir af pólitískum ástæðum. Það, sem fyrst og fremst hefir verið látið koma til greina, er það, að þeir væru allir fullkomlega tryggir jafnaðarmenn, hvaða flokksheiti sem þeir bera. Í n. hafa verið valdir menn, sem eru störfum hlaðnir fyrir, mestu forretningsmenn og menn í erfiðum embættum. Ég gæti t. d. trúað, að hv. samþm. minn, 2. þm. Reykv., hefði annað að starfa heldur en að fara að framkvæma nákvæmar rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Og ég býst við, að bæjarstjórinn í Hafnarfirði hafi ærið að starfa, eins og ástandið er nú líka þokkalegt þar. Báðir þessir menn sitja á þingi, auk annara starfa, þannig að þó að þeir geti setið í n., sem lætur aðra vinna allt fyrir sig, þá virðast þeir ekki hafa verið valdir með það fyrir augum, að þeir hefðu mikinn tíma til að hugleiða þau mál, sem n. á að fjalla um. Eða hv. þm. S.-Þ. Mér getur nú ekki í svipinn hugkvæmzt öllu óheppilegri maður til þess að starfa í svona n., þó ýmislegt megi segja gott um hæfileika hans á öðrum sviðum. Þó hann geti skrifað sniðugar, skammagreinar í blöðin og sé agitationarlega þaulkunnugur út um allt land, þá mun hann gersneyddastur hæfileika til málefnalegrar meðferðar á nokkrum hlut þeirra manna yfirleiti, sem á þingi hafa setið. Og hann er alveg ókunnur þeim praktísku hlutum, sem hér er um að ræða og ósýnt um allt slíkt.

Það er því augljóst, að n. er ekki valin með það fyrir augum, að hún brjóti til mergjar atvinnulega örðugleika, heldur til þess að koma fram vissri teoretiskri skoðun. Þau frv., sem þegar hafa komið frá n., bera skýran vott um þetta. Þau eru flest um mjög smávægileg efni, álíka smávægileg og það, hvort einhver hurð á að vera rauð eða blá o. s. frv., en þó svo illa undirbúin, að þingn. hafa orðið að umskapa þau til þess að þau yrðu nokkurnveginn frambærileg. Þessu skilar n., sem ætlað er að umskapa allan þjóðarbúskapinn og koma honum í betra horf heldur en þeim hefir tekizt, sem að atvinnuvegunum hafa unnið um tugi ára og þekkja út í æsar allt, sem þeim við kemur.

Valdið, sem veita á með því frv., sem hér liggur fyrir, er út af fyrir sig mjög víðtækt, og því engin furða, þó nokkrum óhug hafi slegið á menn, þegar veita á það slíkri n., sem ég hefi nú lýst, með þeirri velvild til atvinnurekendanna, sem búast má við af þeim mönnum, er hana skipa. Hún á að hafa heimild til að heimta skýrslur, bæði munnlegar og bréflegar af embættismönnum, stjórnendum félaga og stofnana og einstökum mönnum. Og svo megi halda mönnum með 10—100 kr. dagsektum til að svara hvaða spurningum sem er og geta þó átt von á, að þessi n. noti þau svör sem henni sýnist. Og svo hefir þessi n. bak við sig allsterkan þingmeirihl. nákvæmlega jafnhlutvandra manna. Ég er ekki með þessu að segja neitt ljótt um nokkurn hv. þm. Ég segi aðeins: jafnhlutvandra manna.

Af því að ég bjóst ekki við að tala hér í kvöld, hefi ég ekki viðað að mér sem skyldi plöggum viðvíkjandi þessu máli. En væntanlega gefst tilefni til þess síðar, og má þá sýna ennþá glögglegar, hvert hlutverk þessarar n. á að vera í raun og veru og hvers af henni má vænta.

Ef það er tilgangurinn, að n. safni skýrslum, um geta orðið atvinnuvegunum til viðreisnar, þá er þar nálega einungis um upplýsingar að ræða, sem ættu að þola dagsins ljós. Yfirleitt ætti þessi n. ekki að geta spurt um annað en það, sem allir mættu vita. Mér hefir verið bent á, að rétt væri að setja í 1. ákvæði um, að allar skýrslugerðir n. skyldu birtar. Ég hefi heyrt það eftir ýmsum n.mönnum, að n. myndi ekki safna annarskonar skýrslum en þeim, sem hag- stofan safnar, en að n. vilji fá þessar skýrslur fyrr og greiðlegar, þar sem skýrslur hagstofunnar koma oft seint og eru orðnar gamlar, þegar þær koma fyrir almenningssjónir. Þetta væri í sjálfu sér gott og blessað. En mér finnst spurningaeyðublöð n. benda á allt annað. Þeir spyrja jafnvel um efnasamsetningu ýmissa framleiddra vöruteg., og er ekki hægt að álíta annað en að þessar upplýsingar eigi að vera til þess, að hægt sé að hnupla iðnaðarleyndarmálum manna og nota þau síðan í þágu þjóðnýtingarinnar, þegar hið opinbera fer sjálft að framleiða smjörlíki, sápur og aðrar vörur, sem nú eru framleiddar hér. Mig stórfurðar á því, ef nokkurt fyrirtæki er hér til, sem látið hefir sér detta í hug að anza þessu. Þó er mér sagt, að einstaka fyrirtæki hafi gert þetta, í því skyni sennilega að kaupa sér frið í bili. Ég hefði ekki trúað því, að hér á landi væru til menn, sem fúsir væru á að leggja höfuðið á höggstokkinn. Sá, sem ætlar að hálshöggva annan, er þó a. m. k. réttur til að leggja manninn á höggstokkinn með valdi.

Meiningin er, að n. geti neytt alla menn til að svara spurningum sínum. Og hún getur spurt um allt milli himins og jarðar. Hún ákveður sjálf störf sín og eins það, hvers sé þörf að spyrja og getur lagt við dagsektir, 10—100 kr., ef öllu er ekki greiðlega svarað. Ef það kemst upp, að í nokkru atriði sé rangt frá skýrt, varðar það við hegningarl.

Um það hefir verið rætt, hvort löglegt sé að veita utanþingsn. slíkt vald. Ég er nú ekki lögfræðingur, og ætla ég ekki út í neinar lagaskýringar. Þó hefir mér virzt, að það sé ekki beint brot á stjskr. út af fyrir sig, þótt heimild verði veitt til slíkrar n.skipunar. Stjórnarskráin bannar ekki að skipa utanþingsn., og yfirleitt takmarkar hún lítt vald þingsins. En því meiri vandi er að fara vel með þetta vald. Og svona vald má ekki fá nokkurri n. í hendur. En ef það skyldi samt vera álitið nauðsynlegt, þá verður a. m. k. að takmarka starfssvið hennar mjög mikið. Ætti þá helzt ekki að fela henni nema eitt mál til rannsóknar, segjum t. d. togaraútgerðina, og það ekki fyrr en hún væri svo illa komin, að ekki reyndist hægt að halda út einum togara. Væri hugsanlegt að skipa utanþingsn. í slíkum tilgangi, og yrði þá að sitja í henni tómir fagmenn. En skipun n., sem hafi ótakmarkað verksvið, megi spyrja allan landslýð að öllu, að viðlögðum dagsektum og refsingum, er algerlega óforsvaranlegt.

Ég skal svo ekki hafa mál mitt mikið lengra, með því að framorðið er og hæstv. forseti ætlar að halda áfram umr., þangað til þeim er lokið. Ég get þá væntanlega tekið til máls aftur, ef mér þykir umr. ætla að hættu of fljótt.

Ég ætla aðeins að endurtaka, að ég sé ekki ástæðu til að skipa þessa n., enda þótt ég álíti, að hún væri betur skipuð, ef í henni væru menn úr fleiri flokkum. Hún gæti þá a. m. k. orðið að liði við rannsókn mála og gæti komið með skynsamlegar till. til viðbótar hinum heimskulegu till. þeirra, sem nú er ætlað að sitja í henni. En þó er ég hræddur um, að sjálfstæðismenn myndu ekki geta unnið með þessum mönnum.

N.skipunin er ekki annað en fálm og að meira eða minna leyti af persónulegum ástæðum og kröfum sprottin. Svo að ég taki dæmi, gæti ég hugsað mér, að menn, sem ekki gátu orðið ráðherrar, hafi þótzt fá nokkurn plástur á sár sín með því að fá að sitja í þessari geigvænlegu n. Við þekkjum ekki öll þau vandamál, sem hæstv. stj. hefir átt í um þær mundir, sem hún ungaði þessu út. Það voru ekki allir hennar fylgismenn vingjarnlegir á svipinn þá dagana.

Ég hefi alltaf verið á móti þessu frv. og mun greiða atkv. á móti því nú eftir 1. umr.