17.12.1934
Efri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Reykv. hreyfði því, að þetta mál hefði lítið verið rætt í þessari hv. d., og það er rétt. Ég gat þess við 2. umr., að ég teldi þýðingarlaust að vera að halda uppi löngu málþófi þá. Það er ekki til þess ætlazt við 2. umr., að rætt sé um málin almennt heldur aðeins einstök atriði. Og þar sem ekki lágu fyrir brtt., var engin ástæða til langra umræðna, enda komið langt fram á nótt þegar 2. umr. fór fram. Ég mun ekki heldur fara að teygja mjög umr. nú. Málið hefir verið rætt í útvarpinu fyrir alþjóð manna. Þar hafa verið settar fram skýrt og greinilega þær ástæður, sem sjálfstæðismenn yfirleitt færa fram móti málinu. Þessar ástæður liggja fyrst og fremst í því, að við viljum ekki stuðla að því, að hafizt sé handa um ríkisrekstur atvinnuveganna, en því hefir verið yfirlýst af hæstv. atvmrh. og í aðalblaði stj., Alþýðublaðinu, að sá væri tilgangurinn með nefndarskipuninni. Og það gefur að skilja, að flokkur, sem telur heppilegra til góðs gengis fyrir þjóðina, að atvinnureksturinn sé í höndum einstaklinganna, getur ekki gengið með til þeirra breyt., sem n. er ætlað að gera á í því efni. Það hefir verið nokkur ágreiningur um það innan stj.flokkanna, í orði kveðnu a. m. k., hvort þessi væri raunverulega tilgangur n. En ég geri nú ráð fyrir, að ef menn skoða þetta ofan í kjölinn, valið í n. og það, sem opinberlega hefir fram komið um málið í stj.blöðunum, þá geti menn naumast verið lengur í vafa um, að verkefni og ætlunarverk n. muni vera að færa atvinnureksturinn úr höndum einstaklinganna og yfir til ríkisins. Og ég verð að segja það, að þau mál, sem til þessa hafa komið frá n., gefa ekki miklar vonir um góðan eða mikinn árangur. Auðvitað eru ekki nema tæpir 4 mán. síðan n. var skipuð og þarf ekki við miklu að búast, en það, sem enn hefir fram komið, eru líka flest smámál, og sumt sízt til bóta, að mínu áliti. Það virðist meira vera um það hugsað að hlynna að einstökum mönnum með allskonar bitlingum heldur en lyfta atvinnurekstrinum í heild. Má t. d. í þessu sambandi nefna frv. um ferðamannaskrifstofu og bifreiðaflutninga, sem er mál mjög rætt hér í hv. d., mál, sem er fram borið án þess að nokkur ástæða hafi verið fyrir því færð, sem frambærileg geti talizt. Auðvitað er það reynslan ein, sem sker úr um það, hvernig þessi n. leysir störf sín af hendi. Hitt er alkunna, að í n. hafa verið skipaðir menn, sem ýmist eru yfirlýstir sósíalistar eða, sem ávalt hafa staðið þeim allra næst í skoðunum, menn, sem jafnan hafa verið tilbúnir að leggja lið sitt til þess að koma á ríkisrekstri, hvenær sem á því hefir verið ymprað. Þannig bendir allt í þá átt, að fyrir stj. vaki með n. þessari að koma á víðtækri, ef ekki algerðri þjóðnýtingu. Að þessu styður líka það, að í n. var enginn sjálfstæðismaður skipaður, þótt vitað sé, að Sjálfstfl. hefir að baki sér 40% af öllum greiddum atkv. við síðustu kosningar og er því stærsti stjórnmálaflokkur landsins, og hefir innan sinna vébanda hlutfallslega miklu fleiri atvinnurekendur en nokkur annar flokkur í landinu, að Framsóknarfl. ekki undanteknum. Ef n. hefði átt að byggja á sama grundvelli í starfi sínu fyrir atvinnurekstur og byggt hefir verið á í þessu landi, þá er ekki ósennilegt, að í n. hefðu verið teknir 1—2 sjálfstæðismenn, og annað a. m. k. hrein ósvinna gagnvart þeim flokki, og eins og er, ber n. á sér hreinan flokksblæ. Það þarf í raun og veru ekki mikið að undrast, eftir því sem framkoma stj.flokkanna hefir verið á þessu þ. Þetta Alþ., er nú situr, hefir fremur líkzt flokksþingi en löggjafarsamkomu, og það er mælt, að stj.flokkarnir muni líta fremur á ríkissjóðinn sem flokkssjóð en sameiginlega eign landsmanna, og þykir það hafa komið fram við úthlutun í fjárl.

En viðvíkjandi því, sem hv. l. þm. Reykv. drap á í sinni ræðu, og ég gerði ráð fyrir, að frsm. myndi svara, þá vil ég láta í ljós sem mína skoðun, að það geti ekki orkað tvímælis eftir orðalagi 1. gr. frv., að rannsóknarvaldið, eða rétturinn til þess að heimta skýrslur, munnlegar eða bréflegar, sé bundinn því skilyrði að sjálfstæðisflokknum sé gefinn kostur á að tilnefna 2 menn í n. Orðalagið er svo ótvírætt, að ekki verður vefengt, enda hefir enginn borið brigður á þennan skilning. Svo minntist hv. þm. á það, að n. hefði lagt spurningar fyrir iðnaðarmenn um það, hvernig iðnaðarvörur þeirra væru framleiddar. þ. e. a. s. n. hefir heimtað „recept“ fyrir samsetningi varanna. Ég verð nú að segja það, að ég trúi þessu varla. En ef svo er sem hv. þm. segir, þá eru þessar spurningar auðvitað markleysa, sem enginn getur verið skyldugur að svara frekar en honum sjálfum sýnist, eins og frv. nú er orðað, enda vafasamt, að hægt sé með einfaldri lagasetningu að setja slík ákvæði, því að þau geta brotið í bága við stjskr., þótt ég telji frv. eins og það nú er ekki gera það. En slík iðnaðarleyndarmál hljóta að njóta sömu verndar og eignarrétturinn yfirleitt. Ég veit ekki, hvað Carlsbergsbryggerier myndu segja, ef einhver slík rannsóknarnefnd kæmi til þeirra og ætlaði að fá „recept“ fyrir tilbúningi ölsins. Ég er hræddur um, að hún hefði fengið stutt svör, og hið sama myndi eiga sér stað hér, þótt farið væri að koma með slíkar spurningar, þótt í 1. gr. frv. standi, að n. skuli hafa heimild til þess að heimta skýrslur munnlegar eða bréflegar „um þau atriði, sem hún telur þörf á í starfi sínu“. Þetta „telur“ á auðvitað að skiljast sem hefir, sem n. hefir þörf á í starfi sínu. En nú hefir hún enga þörf á að vita um leyndarmál iðnaðarfyrirtækja. (MJ: Hún hefir spurt um þau). Já, en það er eins og hver önnur vitleysa, og um það er enginn maður skyldugur að gefa upplýsingar fremur en hann sjálfur kýs. Það, sem n. gæti þurft að fá að vita, eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram, væri e. t. v., hve mikið fyrirtækin framleiða, um útsöluverð, kostnað o. s. frv. o. s. frv. Allar slíkar upplýsingar geta varðað starf n., en engum dettur í hug, að því yrði sinnt, þótt spurt væri um leyndarmál fyrirtækja.

Þá vil ég leyfa mér að spyrja hv. frsm. um skilning hans á ákvæðum 3. gr., þar sem stendur: „Sá, sem vanrækir skyldur þær, sem um ræðir í l. gr., skal sæta 10—100 kr. dagsektum unz skyldunni er fullnægt“. Álítur ekki frsm., að nauðsynlegt væri, ef fyrirtæki neitaði að gefa upplýsingar, að n. yrði að höfða mál gegn fyrirtækinu, ef hún ætlaði að knýja málið í gegn og fá dóm í því? (MG: Auðvitað). Sé þessi skoðun mín rétt, er augljóst, að tafsamt getur orðið að fá þessar upplýsingar, þó að drátturinn verði ekki kostnaðarlaus fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki. En sennilega eru ekki önnur ráð við þessu.

Þá vildi ég spyrja um skilning hv. frsm. á öðru atriði, sem er raunar ekkert vafaatriði frá minn sjónarmiði séð, en ég vildi þó fá fram skilning hv. frsm. Í 1. gr. frv. stendur, að n. sú, sem ríkisstj. skipaði 29. ágúst 1934 til þess að rannsaka fjármál ríkis og þjóðar og hverskonar atvinnurekstur í landinu og til þess að gera till. um hagskipulag þjóðarbúsins o. fl., skuli hafa heimild til þess að heimta skýrslur n. s. frv. Nú vil ég spyrja hv. frsm., hvort hann lítur svo á, að bara meiri hl. n. geti heimtað þessar skýrslur, eða hvort þessi heimild á líka að ná til einstakra nefndarmanna. Ég vænti þess, að hv. frsm. láti álit sitt á þessum tveim atriðum í ljós, áður en umr. lýkur.