17.12.1934
Efri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég skal ekki verða langorður að þessu sinni, tel þess enga þörf. Umræður hafa verið fremur hógværar, eftir því sem búast mátti við, og því lítið tilefni gefið mér til langrar ræðu. Hv. 1. þm. Reykv. taldi, að n. sú, sem hér um raðir, hefði gengið lengra en viðeigandi væri, þar sem hún hefði heimtað af iðnaðarmönnum, að þeir létu uppi leyndarmál sín um efnasamsetningu framleiðsluvaranna og annað slíkt. Ég get litlu svarað þessu, þar sem ég er algerlega ókunnugur starfi n.. en ég hefi ekki heyrt umkvartanir í þessa átt fyrr en nú. En ég tel víst, að verði spurt um slíkt atriði, þá sé það vegna þess, að n. telji þær upplýsingar nauðsynlegar í starfi sínu.

Bæði hv. 1. þm. Reykv. og 2. þm. Rang. töluðu um viðbót þá, sem frv. fékk í hv. Nd., þar sem niðurlagi 1. gr. var breytt svo, að það var gert að skilyrði fyrir heimildinni, að þingflokkur sjálfstæðismanna fengi að tilnefna tvo menn í n. Ég tel víst, að flokknum verði gefinn kostur á þessu, en hann um það, hvort hann notfærir sér það tilboð.

Hv. 2. þm. Rang. talaði mjög hógvært, taldi langar umr. tilgangslausar. Það er rétt. Mál þetta hefir verið rætt frammi fyrir öllum landslýð í útvarpinu, ennfremur mjög ýtarlega í hv. Nd. Bæði af þessum umr. og svo blaðaskrifum er málið orðið alþjóð svo kunnugt, að ég hygg, að fá af þingmálum séu það jafn vel. Hv. þm. lagði mikið upp úr því, að n. væri skipuð einhliða flokksmönnum. Þetta er að vísu rétt, nefndarmenn munu allir vera meðlimir ákveðinna stjórnmálaflokka. En það er vitað, að Sjálfstæðisflokkurinn hefir frá upphafi verið andvígur stofnun þessarar n., og í sumar í kosningaundirbúningnum kom það ótvírætt fram í aðalmálgagni flokksins, að sjálfstæðismenn vildu ekki taka þátt í störfum nefndar sem þessarar. Það var því ekki gott aðgöngu fyrir ráðh. að skipa sjálfstæðismenn í nefndina í óþökk flokksins. — Hv. þm. lagði mikla áherzlu á það, að allir n.mennirnir væru þjóðnýtingarmenn. Ég er nú ekki svo viss um það. Sá hluti nefndarinnar, sem telur sig til Framsóknarfl., hefir mér vitanlega ekki viðurkennt þá stefnu sem sína, a. m. k. ekki í þeirri merkingu, sem við jafnaðarmenn leggjum í hana. — Hv. þm. taldi Sjálfstfl. hafa verið beittan ósvífni með nefndarskipuninni. Ég hefi þegar tekið það fram, að mér finnst ekki hægt að telja það ósvífni, þó að ekki væru skipaðir menn úr flokki, sem lýst hafði andstöðu við nefndarskipunina og starfsemi nefndarinnar.

Þá lagði hv. þm. fyrir mig lögfræðilegar spurningar, og verð ég að játa, að ég get ekki mætt honum á þeim vettvangi, þar sem hann mun vera í fremri röð lögfræðinga talinn hér í bænum, en ég leikmaður á því sviði. Og þó að ég segi eitthvað um þær spurningar má ekki skoða það sem neinn hæstaréttardóm. Hann vill meina, ef menn þrjózkist við að gefa þær upplýsingar, sem um ræðir í 1., gr. frv., sé ekki hægt að knýja menn til þess nema með málssókn. Ég þori ekkert að fullyrða um þetta, reynslan verður að skera úr þessu atriði. Það má vel vera, að menn neiti að gefa einhverjar þær upplýsingar, sem n. krefst, og vilji láta dómstólana skera úr því, hvort það sé skylda þeirra eða ekki. Þá verður auðvitað að hlíta þeim dómsúrskurði. Hv. þm. spurði ennfremur, hvort einstakir nefndarmenn gætu krafizt upplýsinga eða aðeins meiri hl. nefndarinnar. Ég hefi ekki kynnt mér starfsfyrirkomulag nefndarinnar, en ég geri ráð fyrir því, að ekki verði annað framkvæmt en það, sem meiri hl. nefndarinnar samþykkir. Ef þessu er ekki þannig varið, upplýsist það í umræðunum og þarf ég því ekki að fjölyrða um það.

Ég vil taka það fram, að mér virðist sem andúð einstakra hv. þm. við þetta frv. sé sprottin af ástæðulausum ótta. Ég get ekki séð, hvað það væri í atvinnurekstri landsmanna, sem þyrfti að fela fyrir n. sem þessari. Og ég held líka, að þjóðnýtingaróttinn sé ástæðulaus, a. m. k. eins og sakir standa. Þjóðnýting atvinnuveganna þarf langan og rækilegan undirbúning og verður ekki gerð nema í samræmi við vilja fólksins í landinu eða meiri hl. þess. En við er um ekki einir um það sem þjóðfélag, að vilja þoka atvinnuvegum okkar í áttina til aukinnar og betri skipulagningar, og vil ég þar benda á stórveldið Bandaríki Norður-Ameríku, og nú nýlega hefir komið frétt þess efnis, að enski stjórnmálamaðurinn Lloyd George ætli að beita sér fyrir svipaðri stefnu og núv. Bandaríkjaforseti fer eftir. Á Norðurlöndum er þetta heldur ekki ný saga. Langt er síðan nefndir með svipuðu hlutverki voru skipaðar í Svíþjóð og Noregi. Ég játa það, að enn hefir ekki sprottið mikill árangur af starfi þessara nefnda, en þær munu þó hafa lagt fram ýtarleg álit og tillögur um skipulagningu atvinnuveganna.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta, málið liggur ljóst fyrir, og vona ég, að ekki þurfi að verða langar umræður um það hér eftir, því þær mundu tilgangslausar og atkv. gr., sem hér fer á eftir, sker úr um það.