17.12.1934
Efri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Það er aðeins fátt eitt úr ræðu hv. frsm., sem ég tel þörf á að svara. Hann sagði, að það lægi nú ljóst fyrir öllum, hvað þessi n. á að vinna. Ég verð að segja, að þetta liggi ekki ljóst fyrir mér. Það hefir verið sagt, að n. væri skipuð í samræmi við 4 ára áætlun Alþýðuflokksins. Þar stendur (með leyfi hæstv. forseta): „Stofnuð sé ráðgefandi n. sérfróðra manna, þingi og stj. til aðstoðar, er geri nákvæmar áætlanir um allar opinberar framkvæmdir á tímabilinu og stjórni vísindalegum rannsóknum til undirbúnings þeim og geri jafnframt till. um, hvernig komið verði fastri stj. og skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, jafnt opinberar framkvæmdir og fyrirtæki sem atvinnurekstur einstaklinga, svo að þau verði sem hagkvæmast rekin og aukin með hagsmuni almennings fyrir augum (Planökonomi)“. Í sambandi við þetta stefnuskráratriði Alþýðuflokksins á nefndin að hafa verið skipuð. Ég get ekki hugsað mér, að menn þeir, sem skipaðir voru í nefndina, hafi nokkru þá sérþekkingu á atvinnuvegum landsins til að bera, að það gæti réttlætt skipun þeirra. Ennþá síður get ég hugsað mér þessa menn standa fyrir vísindalegum rannsóknum og tilraunum í þarfir atvinnuveganna. Ég fæ ekki betur séð en að skipun nefndarmannanna hafi verið hreinpólitísk. Ég held, að enginn nefndarmanna hafi nokkur skilyrði til að gera gagn í svona n. öðrum fremur, nema ef það væri hv. 2. þm. Reykv., sem hefir bæði þá menntun og lífsreynslu, að maður ætti að geta gert ráð fyrir því, að hann bæri skyn á ýmiskonar atvinnurekstur. Ég segi þetta ekki til að niðra þessum mönnum, sem að mörgu leyti eru góðir og gegnir menn, — en þeir hafa bara enga sérþekkingu til þess að geta orðið að liði á þessu sviði fremur en hverjir aðrir.

Hv. frsm. sagði, að við Íslendingar værum ekki eina þjóðin, sem hefir farið þessa leið í atvinnumálum. Ég vil nú segja, að við höfum farið aðrar leiðir yfirleitt en flestar aðrar þjóðir. Annarstaðar hefir verið reynt að glæða atvinnuna og skapa í atvinnulífinu sem mest öryggi og ró. En mér sýnist, að við förum allt aðra leið. Okkar aðferð hefir verið sú, í stað þess að skapa öryggi og ró, að koma inn ótta hjá atvinnuveitendum um, að ríkið geti fyrirvaralaust tekið atvinnureksturinn undir sig og einstaklingarnir verði útilokaðir frá að halda áfram. Og þegar árlega eru sett lög um stórfellda skattahækkun, skapar það öryggisleysi og ótta um, að útkoman verði sú sama, hvernig sem atvinnan gengur: ef vel gengur, þá þeim mun meiri skattar, ef illa gengur, þarf ekki að lýsa afkomunni. Ég verð að játa, að inn í tekju- og eignarskattslögin hefir þó komizt eitt ákvæði, sem er til mikilla bóta, sem sé ákvæði um rétt til þess að draga frá tekjum tap 3 síðustu ára. Þetta er líka það eina, sem gert hefir verið til þess að skapa öryggi fyrir atvinnurekendur í landinu. Það er alkunnugt, að eftir kosningarnar í vor varð sú breyt. á, að margir hættu við ýms fyrirtæki, sem byrjað var á, af ótta við, að þeirra biði fjárhagslegt hrun, vegna þeirrar stefnu, sem tekin er gagnvart atvinnuvegunum. Að menn líta svo á, að þessi skattastefna sé hættuleg, er algengt, jafnvel án tillits til þess, hvaða pólitískan flokk þeir fylla.

Hv. frsm. sagði, að ekki hefði verið ástæða til að skipa sjálfstæðismenn í n., því flokkurinn hefði lýst sig andvígan n.-stofnuninni. Ég hefi lýst því yfir áður og skal endurtaka það nú, að það var ekki ástæða til að skipa sjálfstæðismenn í n., ef hlutverk hennar á að vera að undirbúa þjóðnýtingu. Því vitanlega er ekki hægt að ætlast til, að menn, sem álíta aðra skipun heppilegri fyrir atvinnuvegina, leggi fram till. um það gagnstæða. En það var líka því aðeins, að tilgangurinn með n.skipuninni væri sá, að hlutverk hennar væri að undirbúa þjóðnýtingu, það var því aðeins ástæðulaust að bjóða sjálfstæðisflokknum að hafa menn í n. Sjálfstæðisflokkurinn hefir aldrei gefið yfirlýsingu um, að hann væri andvígur umbótum á atvinnurekstrinum: slíkt er óhugsanlegt, að nokkur flokkur geri. Þó sjálfstæðismenn játi fylgi sitt við einstaklingsrekstur, er ekki þar með sagt, að allt sé með heppilegu fyrirkomulagi, heldur er þeim fullljóst, að þar fer margt aflaga, sem þarf að bæta úr. Og ef þessi n. er skipuð til þess að reyna að bæta skipulagið á þjóðarbúskapnum, hefði Sjálfstæðisflokkurinn viljað vera með, svo framarlega sem þjóðfélagið fengi að starfa áfram á sama grundvelli og verið hefir þ. e. a. s. með einkaeign og einstaklingsrekstri. Ef haldið er áfram á þeirri braut, er Sjálfstæðisflokkurinn fús til að vera með. En einmitt þetta, að Sjálfstæðisflokknum er ekki boðið að hafa menn í n., sýnir betur en allt annað, bæði yfirlýsingar og blaðaskrif, að tilgangurinn er allt annar. Ef byggja átti á sama grundvelli var blátt, áfram ósvífni að bjóða ekki Sjálfstæðisflokknum að hafa menn í n., en annars var það ástæðulaust.

Ég vil segja hv. frsm., að þó ég hreyfði athugasemd um vafasaman skilning á 2. gr. frv., var það ekki gert í þeim tilgangi að reyna að koma honum í lögfræðilegan vanda með rökfræðilegum skýringum. En ég vildi gera hv. þm. ljóst, að ef vafi leikur á um skilning á ákvæðum l., getur það haft mikla þýðingu, að sá sem ber málið fram, hafi lýst yfir, hvaða skilning hann leggur í það, hvað fyrir honum vakir með ákvæðinu. Getur þetta haft meira að segja heldur en þó andstæðingar komi með lögfræðilega skýringu, þó lagastafurinn hafi að vísu mest að segja. Ég er ekki í neinum vafa um, hvernig eigi að skilja annað atriðið um dagsektir, og raunar ekki heldur um hitt atriðið, og býst ég við, að skilningur hv. frsm. sé réttur. Tilgangur fyrirspurnarinnar var aðeins sá, að fyrir lægi í Alþt. yfirlýsing frá flm. frv. um skilning á þessum atriðum.