06.10.1934
Neðri deild: 3. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

36. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta mál er bæði einfalt og auðskilið, og má segja, að það hafi verið gleymska á síðasta þingi, þegar ýmsar breyt. voru gerðar á l. um þingsköp, sem nauðsynlegar voru vegna þeirrar starfsbreyt. á Alþingi að flytja afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga í sameinað þing, að þessi breyt. var þá ekki einnig gerð.

Eins og kunnugt er, hafa jafnan verið lengstir og erfiðastir fundir um afgreiðslu fjárlaga, og má búast við, að það verði ekki síður svo, þegar öllum þingmönnum slær saman í einni málstofu. Samkv. þingsköpunum er ekki nema einn varaforseti í sameinuðu þingi, og fari svo, að annarhvor, forseti eða varaforseti, veikist, þá kemur það á einn mann að stjórna ef til vill mjög löngum fundum, en það virðist vera óþarfi, þar sem um nóga menn er að velja til þessa starfa. Ég hefði ekki óskað eftir því, að frv. þetta færi til n., þar sem það er svo auðskilið, en af því vel getur verið, að hv. d. sjái ástæðu til þess að gera fleiri breyt. á l. um þingsköp, óska ég, að frv. verði vísað til allshn. og 2. umr.