25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Eins og grg. frv. ber með sér, er það flutt af samgmn. eftir beiðni atvmrh., og er komið frá skipulagsn. atvinnuveganna. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til þess að bera fram brtt. við 2. umr. Í grg., sem fylgir með frv. frá skipulagsn., eru tekin tvö dæmi til þess að sýna, hvernig framkvæmd l. frá 1929 um sameining pósts og síma hefir orðið. Þau eru frá Ísafirði og Seyðisfirði. Á Ísafirði lækkar kostnaðurinn við rekstur þessara stofnana úr 9193,24 kr. niður í 5583,08 kr., og á Seyðisfirði úr 9375 kr. niður í 6169,97 kr. Þannig sparast árlega á þessum tveimur stöðum næstum 7000 kr. við sameininguna. Með frv. fylgja einnig bréf frá landssímastjóra og póstmálastjóra, og er bréf landssímastjóra nýtt, en hitt gamalt. En nú hefir n. borizt bréf frá póstmálastjóra, dagsett fyrir nokkrum dögum, og kemur þar fram, að póstmálastjóri er enn sömu skoðunar og í bréfinu, sem frv. fylgir. Bæði hann og landssímastjóri nefna það, að erfitt sé með sameiningu í Reykjavík, þar sem stofnanirnar séu nú sín í hvoru húsi. — Ég ætla svo að endingu að benda á nokkur atriði, sem póstmálastjóri færir til sem meðmæli með því, að sameiningunni sé haldið áfram. Í fyrsta lagi sparast forstjóralaun annarar stofnunarinnar. Í öðru lagi sparast mannahald mikið, þar sem saman gæti farið bréfberastarf og símasendisveina. Í þriðja lagi húsnæðissparnaður, og í fjórða lagi mætti spara ekki svo lítið á eftirlitsferðum og fleira slíku, þar sem nú er svo ástatt, að báðar stofnanirnar senda menn á sömu staðina.

Ég tel ekki þörf á því að nefna fleiri dæmi eða fara fleiri orðum um frv., en vil mælast til, að því verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.