25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég mundi ekki hafa séð ástæðu til að taka til máls við þessa umr., ef ekki hefði komið í ljós nokkur misskilningur hjá hv. samnm. mínum, þm. V.-Sk. Við munum að vísu fá tækifæri til að ræða það í n., en ég vildi þó leiðrétta þetta hér í d. Hv. þm. hélt því fram, að það mundi hafa stórfelldan aukakostnað í för með sér að sameina póst og síma, einkum úti um land, því þar yrði víða ekki komizt hjá að byggja, þar sem afgreiðslan væri nú í húsum starfsmannanna eða öðrum einkaeignum. Vitanlega má alveg eins leigja húsrúm áfram, þó sameiningin kæmist á, ef það þætti hentugra en byggja. Hitt, sem hv. þm. sagði í sambandi við sameininguna, að óhjákvæmilegt mundi verða að byggja nýtt pósthús hér í Rvík, nær vitanlega engri átt. Slíkt kemur ekki til mála. Mér virðist, að menn blandi allt of mikið saman aðstöðunni hér í Rvík og starfseminni úti um landið. Þó þetta væri sameinað úti um landið, er ekkert þar með sagt um, hvernig því yrði hagað hér í Rvík. — Hefi ég svo ekki meira að segja í þetta sinn, en vonast eftir, að n. fái tækifæri til að fjalla um málið áður en það verður tekið til umr. aftur. Ég sé annars ekki, hvaða ástæðu hv. þm. V.-Sk. hefir haft til að standa upp, aðra en þá að narta í hv. 2. þm. Reykv.