25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Héðinn Valdimarsson:

Það er einkennileg löngun hjá hv. þm. V.-Sk. til að segja ósatt. Það kemur varla fyrir, að hann standi upp til annars en rangfæra sannleikann. Ég vil aðeins segja það, að ef hv. þm. er vanur að byggja dóma sína á þeim grundvelli, þá undrar mig ekki, þó þeir standist illa. Hann hefir t. d. borið fram hér í þessari hv. d. aðra eins fjarstæðu og það, að ég hafi sagt, að skipulagsnefnd ætti fyrst að koma fram með málin og róta þeim inn í þingið, og svo ætti að rannsaka þau á eftir. Það mál, sem hér liggur fyrir, heyrir alveg tvímælalaust undir skipulagsn., og ég vil segja hv. þm., að það er alls ekki hans að segja til um, hvaða mál heyri undir n. og hver ekki, heldur ríkisstj., sem hefir skipað hana og síðan hefir séð um, að frv. yrði flutt á þingi. Málið hefir verið rækilega undirbúið af n., og væri vel, ef þau smámál, sem hv. þm. V.-Sk. flytur, byggðu á annari eins undirstöðu.