25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég hefi ekki miklu við að bæta það, sem ég hefi hér áður sagt. Aðalatriðið fyrir mér var að fá málið aftur til athugunar í nefnd. Það er vitanlega misskilningur hjá hv. þm. N.-Þ., að ekki þurfi að byggja jafnvel víða úti um land, ef sameiningin ætti að fara fram. Eins og nú er, hafa margir starfsmenn pósts eða síma afgreiðsluna í eigin húsum. En þar mun mjög óvíða vera húsrúm til að sameina hvorttveggja. Það er því óhjákvæmilegt, að víða þurfi, vegna aðstöðunnar, ný hús, og jafnvel nýja menn. Ég þarf ekki fleiru við þetta að bæta til að sýna fram á, að málið er órannsakað frá skipulagsn., og mun sýna sig eftir á, er það fær sinn dóm eins og önnur störf. Enda stóð hv. þm. N.-Þ. ekki upp til annars en staðfesta ókunnugleika sinn á þessum málum. Póstmálastjóri getur þess í bréfi til n., að eigi sameining að fara fram, muni þurfa nýja byggingu hér í Rvík, og telur, að með því að byggja nýtt pósthús við landssímastöðina, yrði haganlegast bætt úr því. Hv. þm. hefir ekki tekið vel eftir, hvað stóð í þessu bréfi, og átti þó að heita, að hann læsi það upp fyrir n.