24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins fá orð um brtt. mína á þskj. 564, við 5. gr. frv., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á þeim stöðum utan Reykjavíkur, þar sem er bæði póstafgreiðsla og landssímastöð skal sami maður gegna hvorutveggja starfinu, þegar það að áliti póst- og símamálastjóra telst haganlegt.“ Hér leyfi ég mér að leggja til, að við verði bætt: að fengnum tillögum hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar. — Greinin lætur ákvörðunarvaldið í þessu efni vera algerlega í höndum póst- og símamálastjóra. En mér virðist, að það geti oft komið fyrir, að þó það verði að álítast haganlegt frá sjónarmiði póst- og símamálastjóra, t. d. af sparnaðarástæðum fyrir ríkissjóð, að sameinuð verði afgreiðsla pósts og síma í einhverjum hreppi eða kaupstað úti á landi, þá sé líka önnur hlið á því máli, sem snýr að íbúum þess staðar og sjálfsagt sé að líta á eða taka til greina. Það virðist a. m. k. sanngirnismál, að álit eða umsögn frá íbúum þess staðar, þar sem breytingin á að fara fram, liggi fyrir áður en póst- og símamálastjóri tekur um það fullnaðarákvörðun; m. ö. o., að þeir verði heyrðir áður en þessi skipun fer fram. Þessi litla brtt. miðar að því, að bæjar- og sveitarstjórnir fái að segja sitt álit áður en afgreiðsla pósts og síma er sameinuð í sveitum og kaupstöðum utan Rvíkur, ef hún hefir verið fyrirhuguð af póst- og símamálastjóra, eins og frv. gerir ráð fyrir. Það virðist óþarft að rökstyðja þetta frekar. Það er svo sjálfsagt sanngirnismál, að íbúar þeirra sveita eða kaupstaða, sem þarna eiga hlut að máli, fái að láta í ljós álit sitt. Þar geta svo mörg atriði komið til greina, er ýmist mundu mæla með eða móti sameiningunni. Bæði staðarlegar ástæður, er hníga að því, hvar póstafgreiðsla og símastöð eru settar í kauptúnum og sveitum, og persónulegar ástæður, sem eiga að gefa það til kynna, hvernig almenningi á staðnum fellur við þá, sem afgreiðsluna annast, og hvernig hún fer fram. Mér finnst sanngjarnt, að þessir aðilar fái að láta í ljós álit sitt um það, hvort sameining þessara starfa er haganleg eða ekki, áður en hún er gerð. Hitt leiðir svo vitanlega af sjálfu sér, eftir orðalagi 5. gr., að úrskurðarvaldið er eftir sem áður hjá póst- og símamálastjóra. Hér stendur aðeins í brtt. minni „að fengnum tillögum hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar“. —Hinsvegar mætti ætla, ef þessi brtt. yrði samþ., að litið yrði sanngjarnlega á þær ástæður, sem fyrir hendi væru, ef bæjar- og sveitarstjórnir yrðu ekki sammála póst- og símamálastjóra.