24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð. Um brtt. mína á þskj. 580 hefir hv. frsm. samgmn. raunar sagt það, sem segja þarf. Hún er flutt eftir bendingu frá landssímastjóra, sem telur það eðlilegt, að þessi starfsmaður, sem talað er um í brtt., loftskeytastöðvarstjórinn í Reykjavík, sé talinn með í 3. gr. frv.

Út af brtt. þm. þm. Vestm., um að leitað skuli umsagnar hlutaðeigandi bæjar- og sveitarstjórnar áður en afgreiðslustörf pósts og síma yrðu sameinuð í þeirra umdæmi, verð ég að segja það, að samgmn. hefir ekki haft tækifæri til að ræða hana á fundi, en ég fyrir mitt leyti er henni heldur mótfallinn. Ég held, að bæjarstjórnir og sveitarstjórnir hafi yfirleitt ekki ástæðu til að skipta sér af því, að póst- og símaafgreiðslur séu sameinaðar í einstökum byggðarlögum, enda mundi það ekki leiða til annars en að vekja ágreining eða deilur heima fyrir manna á meðal.

Það eru aðallega tvö sjónarmið í þessu máli, sem verður að taka til greina, sjónarmið stofnunarinnar, þ. e. a. s. póst- og símamálastjórnar, og jafnframt sjónarmið alls almennings, en ekki sérstaklega hið takmarkaða sjónarmið þeirra, sem búa á staðnum, þar sem sameining þessara afgreiðslustarfa á að fara fram.

Ég vil benda á, að það getur komið fyrir, að bæjar- eða sveitarstjórn sjái ekki ástæðu til að mæla með sameiningu þessara embætta á staðnum, heldur leggi á móti því, aðeins af þeirri ástæðu, að hún telur ekki viðeigandi, að maður, sem hefir lífvænlega atvinnu í þorpinu eða sveitinni, sé sviptur henni, þó það sé auðvelt frá sjónarmiði stofnananna að sameina þar afgreiðslu pósts og síma. Þess vegna legg ég á móti því, að þessi brtt., verði samþ.