24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hv. þm. N.-Þ. segist heldur leggja á móti því, að brtt. mín verði samþ. Þar með vill hann leggja á móti því, að bæjar- og sveitarstjórnir megi nokkuð hafa um það að segja, að póst- og símaafgreiðsla verði sameinuð í þeirra umdæmum. Mér þykir undarlegt, að nokkur skuli leggja á móti svo sanngjörnu og sjálfsögðu atriði. Hv. frsm. sagði, að samgmn. væri hlutlaus gagnvart þessari till., en náttúrlega er ekkert við því að segja, þó að einstöku nm. séu henni mótfallnir, en eðlilegast hefði verið, að n. væri einhuga með henni. Hv. þm. N.-Þ. talaði um tvö sjónarmið, annarsvegar sjónarmið stofnunarinnar, og hinsvegar sjónarmið alls almennings, sem taka ætti til greina við sameiningu þessara starfa. Skilst mér, að hann meini þar með sjónarmið alþjóðar, en ég álít, að það falli saman við sjónarmið þessarar ríkisstofnunar, sem póst- og símamálastjórnin veitir forstöðu. Hinsvegar sagði hv. þm., að sjónarmið þeirra aðila, sem búa á þeim stað, er sameining þessara starfa fer fram, ætti ekki að koma til greina. Þetta er undarleg kenning. Við skulum taka dæmi: Hvað skiptir það t. d. íbúa Húsavíkur, hvort afgreiðsla pósts og síma er sameinuð á Akureyri, Siglufirði, Vestmannaeyjum eða Hafnarfirði? Vitanlega skiptir það Húsvíkinga engu máli, nema að því leyti, sem alþjóðarsjónarmið kemur þar til greina. En það getur aftur á móti skipt talsvert miklu máli fyrir íbúana á þessum stöðum, hvort þessi sameining verður gerð eða ekki. Mér finnst, að það verði að skilgreina þessi sjónarmið þvert á móti því, sem hv. þm. gerði: Annarsvegar á að taka til greina sjónarmið forstöðumanns þessarar ríkisstofnunar, póst- og símamálastjóra, sem sér um fjárhagslegu hliðina og rekstur þessara mála í nafni alþjóðar, en hinsvegar á að meta sjónarmið og aðstöðu þeirra manna, sem eru notendur pósts og síma á þeim stöðum, þar sem ráðgert er, að störfin verði sameinuð. En þá vill hv. þm. N.-Þ. til einskis kveðja um málið, þó það séu einmitt þeir, sem eiga að skipta við póst- og símaafgreiðsluna. Þær stofnanir eru til fyrir fólkið í kaupstaðnum eða sveitinni, en fólkið ekki fyrir stofnanirnar. Á þetta vil ég minna hv. þm. N.-Þ. — Annars er það talsvert undarleg kenning hjá þeim hv. þdm., sem sífellt eru að blása sig út með lýðræðisglamri hér á Alþingi, að fólkið, sem á að njóta góðs af þessum stofnunum og búa við þær, skuli ekki mega hafa neitt um það að segja, hvernig þær eru starfræktar.

Ég viðurkenni fullkomlega, að forstöðumaður þessara stofnana eigi að hafa úrskurðarvaldið um það, hvernig þær eru starfræktar, en hinu held ég hiklaust fram, að fulltrúar fólksins heima í héruðunum eigi að hafa tillögurétt þar um. Ég fyrir mitt leyti hirði t. d. ekkert um að hafa áhrif á það, hvernig þessum störfum væri skipað í kjördæmi hv. þm. — N.-Þingeyjarsýslu —, en ég krefst þess að fá þennan rétt lögfestan fyrir mitt kjördæmi, þannig að fólkið fái að láta í ljós álit sitt um, hvernig þessum störfum verði skipað þar, þegar til þess kemur. Ég hefi áður fært rök að því, hversu sanngjarnt þetta væri af margskonar ástæðum, sem hefðu máske fullt eins mikinn rétt á sér og ástæða póst- og símamálastjóra, ef hann t. d. kynni að vilji sameina afgreiðslu pósts og síma aðeins vegna þess, að með því mætti spara segjum 500 kr. á ári fyrir ríkissjóð í húsaleigu. Þetta er náttúrlega hlutur, sem mundi koma til álita í þessu efni, en ástæður þeirra manna, sem búa á staðnum, eiga líka að hafa nokkurn rétt á sér.