24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Jónas Guðmundsson:

Það er sérstaklega brtt. hv. þm. Vestm. á þskj. 564, sem mér finnst ástæða til að minnast á. Allar hinar brtt. eru aðeins lagfæringar og leiðréttingar á því frv., sem hér er til umr. Ég hefi verið að velta því fyrir mér, hvort það muni vera rétt að setja þetta ákvæði um tillögurétt bæjar- og sveitarstjórnar í þessu máli inn í frv., og ég er kominn á þá skoðun, að það sé heppilegra. Kauptúnin öll verða að greiða ákveðna upphæð í rekstrarkostnað. Þetta var upphaflega sett, þegar síminn var fyrst lagður í kauptúnin, og hefir síðan ekki fengizt breytt. Á Norðfirði var ákveðið að greiða í þessu skyni 600 kr. á ári. Þá voru litlar tekjur af stöðinni. En þetta er alltaf greitt, þótt nú sé ágóði af rekstrinum milli 20—30 þús. kr. árlega. Bæjarstj. hefir farið fram á, að þetta verði látið niður falla, en það hefir ekki fengizt undir nokkrum kringumstæðum. Þegar sameina á póst og síma á svona stöðum, er ekki sama, hvar þetta er sett í bænum. Það getur verið margt, sem þar kemur til greina. Dæmi má nefna frá Norðfirði. Áður en sameiningin fór þar fram var pósthúsið í öðrum enda bæjarins, og afaróþægilegt að ná þangað. Þá var farið fram á það, að póstmálastjórnin kostaði að einhverju leyti útburð bréfa. Þessu var algerlega neitað, nema með því móti, að bæjarstj. legði líka fram fé í þessu skyni. Svo voru af bæjarins hálfu lagðar fram 150 kr. á ári til þessa. Þegar sameiningin fór fram, var pósthúsið sett í miðjan bæinn, þar sem allir áttu sem greiðastan aðgang að. Afleiðingin varð sú, að allir áttu auðvelt með að nálgast bréf sín, og bréfaútburður óþarfur. En póstmálastj. fæst ómögulega til þess að fella niður þessa 150 króna greiðslu, og enn er henni haldið uppi þrátt fyrir breytinguna. Þótt ég hafi hér rætt um smákauptúnin, sem ég þekki bezt til, þá hygg ég, að margir hafi svipaða sögu að segja. Því er það rétt, að kauptúnin hafi íhlutunarrétt um þetta smávægilega atriði, og gæti það sparað mikla óánægju og óþarfa rifrildi.