24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Jón Sigurðsson:

Það, sem á þetta atriði hefir verið minnzt, hefir það einungis verið frá sjónarmiði kaupstaða, en það er ekki heldur þýðingarlaust fyrir sveitirnar, að geta gefið landssímastjóra sem yfirmanni þessarar stofnunar bendingar um það, hvernig viðhorfið sé á hverjum stað. Síðan farið var að flytja póstinn með bifreiðum hafa afgreiðslustaðirnir verið valdir sem næst aðalvegunum, en þar með er ekki sagt, að þetta sé haganlegt fyrir sveitirnar, að þar sé símstöð fyrir sveitina. Það kemur líka oft fyrir, að símastöðin er á öðrum stað en pósthúsið og liggur betur við aðsókn fólksins. Það hefir því mikla þýðingu fyrir sveitafólkið, að staðir þessir séu sem allra haganlegast valdir, meðan ekki eru komnar símalínur heim á hvern bæ. Það getur t. d. í mörgum tilfellum riðið á lífi manna, hvort hægt er skyndilega að ná til læknis eða ekki gegnum síma. Það getur verið mörgum héruðum viðkvæmt mál, að símastöðin sé flutt e. t. v. á annan enda sveitarinnar. Frá sjónarmiði sveitanna tel ég því hyggilegra að leyfa hreppsnefndum að koma að þeim sérstöku upplýsingum, sem þær hafa að gefa, ef þær óska þess. Hér er ekki að neinu leyti verið að binda hendur forstöðumanns þessarar stofnunar, því að einungis er um tillögurétt að ræða.