13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

60. mál, forðagæsla

Sigurður Kristjánsson:

Ég er ekki viss um, að ég hafi skilið það allt rétt, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, því ég hefi ekki enn vanizt svo framburði hans. En mér skildist þó á ræðu hans, að þáltill. okkar væri nú kviksett og að þetta frv. ætti að koma í hennar stað. Nú hefir vonandi ekki gleymzt að taka í frv. aðalatriði till., en þau voru: Fyrst að sjá um, að ásetningsskýrslunum af óþurrkasvæðunum verði safnað saman svo fljótt sem verða má. Í öðru lagi var það lagt til, að upplýsinga yrði aflað um það, hvort hey muni vera aflögu í öðrum sveitum landsins, og hver mundi verða flutningskostnaður á þeim til óþurrkasvæðanna, ef til kæmi. Og í þriðja lagi, að upplýsinga sé aflað um það, hve dýrt hey mundi verða, flutt frá Noregi eða Skotlandi. Þetta er það, sem þarf að gera. Hv. 2. þm. N.-M. skýrði frá því, sem hefir verið gert. Öll frásögn hans hné að því sama, að sáralítið hefir verið gert í málinu. Það hefir að vísu verið tryggt nokkuð af fóðurbæti, haldinn fundur í Skagafirði og Vilhjálmur Þór farið um Eyjafjörð, en aðeins úr tveimur hreppum í Húnavatnssýslu hafa komið pantanir. Þetta allt virðist sanna það, að málið er ekki svo rannsakað sem þyrfti.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, getur leitt til umbóta á þessu sviði í framtíðinni, en viðvíkjandi yfirvofandi vandræðum kemur það ekki að neinu gagni. Það er kunnugt, að forðagæzlumenn taka starf sitt ekki alvarlega að jafnaði, og í raun og veru fer haustskoðun þeirra of seint fram, ekki fyrr en l5. —20. október. Þá er komið í ótíma með að slátra og kannske búið að slátra því fé, sem hægt hefði verið að láta lifa. Það er tvennt, sem forðagæzlumenn eiga að hafa eftirlit með; annað að sjá um, að ekki sé sett vitleysislega á heyin, og hitt að forða frá því, að bændur eyði bústofni sínum að óþörfu. Þáltill. okkar hv. þm. A.-Húnv. vinnur gegn því, að bændur þurfi að eyða bústofni sínum fram yfir það, sem þeir geta sér að meinalausu. Þrátt fyrir það þurfum við víst hvorki að vænta henni óbeins eða beins stuðnings frá stjórnarflokkunum. Meiri hl. í þinginu mun áreiðanlega drepa þessa till. sem aðrar, er frá okkur sjálfstæðismönnum koma. Hinsvegar get ég ekki skilið, hvernig þeir geta gert það að flokksmáli, að drepa þessa till. Og ég verð að láta í ljós alveg sérstaklega vanþóknun á því, að meiri hl. í einni n. leyfi sér að myrða mál eins og á að gera með þessa till. Það er réttur hvers þm., að hann fái að sjá vilja d. um sínar till. Þess vegna mótmæli ég því sem algerlega óforsvaranlegu athæfi hjá landbn., ef hún ætlar að stinga þáltill. undir stól.