13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

60. mál, forðagæsla

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég skal ekki blanda mér inn í þessar umr. að öðru leyti en því, sem við kemur að flytja inn hey frá útlöndum. Eins og kunnugt er, þá er bannað í l. að flytja inn hey frá útlöndum. vegna þess, að hætta þykir fyrir búfjárframleiðsluna, að hingað berist gin- og klaufnaveiki. Nú hefir verið talað um það, að e. t. v. þyrfti að grípa til þess að flytja inn hey frá Skotlandi eða Noregi. Í þessum löndum hefir geisað gin- og klaufnaveiki, sérstaklega í Skotlandi, og í Englandi er þessi veiki landlæg og gýs alltaf upp við og við. Í Noregi hefir veikin komið upp í eitt skipti a. m. k., sem olli því, að brenna þurfti heila bújörð til þess að fyrirbyggja útbreiðslu, en samt sem áður gæti veikin legið í landi. Ég vildi því láta það koma fram sem mína skoðun, að undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, komi ekki til nokkurra mála að upphefja þau gildandi lagaákvæði, sem banna innflutning á heyi, enda hugsa ég, að hægt muni vera að, fá heyforða frá þeim landshlutum, sem betur hefir gengið með heyskapinn í sumar.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi láta koma fram í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram um að flytja inn hey frá útlöndum, að ég tel það alls ekki geta komið til nokkurra mála.