13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

60. mál, forðagæsla

Jón Sigurðsson:

Ég get verið þessu frv., sem hér liggur fyrir, fylgjandi, sérstaklega tel ég það rétt og eðlilegt, að ráðh. á hverjum tíma hafi heimild til þess að heimta skýrslur um fóðurbirgðir. En ég er ekki eins trúaður á þessar skýrslur eins og mér skildist hv. 2. þm. N.-M. vera, þar sem hann vildi að nokkru leyti leggja þær til grundvallar fyrir því, hver væri hin raunverulega búfjáreign manna. Mér er kunnugt um það, að þessar skýrslur eru mjög óábyggilegar, og séu skýrslur hreppstjóra ekki fullkomlega á byggilegar, þá vil ég fullyrða, að skýrslur forðagæzlumanna séu ennþá óábyggilegri hvað þetta snertir.

Ég ætla ekki að blanda mér neitt verulega inn í þær umr., sem orðið hafa, en vil aðeins geta þess, að ég sé enga ástæðu til þess að setja samþykkt þessa frv. í beint samband við það að óska eftir skýrslum frá forðagæslumönnum. Mér skildist á hv. 2. þm. N.-M., að ekki væri hægt að fá þessar skýrslur fyrr en þessi 1. væra samþ. Ég er sannfærður um það, að forðagæzlumennirnir mundu fúslega gefa upp fóðurþörfina, jafnt hvort þessi l. eru samþ. eða ekki, þegar eins stendur á og nú. Og það, sem stj. átti vitanlega að gera strax í haust, var ekki að snúa sér til eins af ráðunautum Búnaðarfél., heldur skrifa strax sýslumönnum og biðja þá að snúa sér til forðagæzlumannanna. Með því móti hefðu skýrslurnar getað legið nú fyrir, því ég efast ekki um, að hver einasti forðagæzlumaður hefði talið skyldu sína að gefa slíkar skýrslur. Ég sé því ekki, að ástæða hafi verið fyrir stj. að bíða eftir því, að þessi l. yrðu samþ., með þeim seinagangi á afgreiðslu mála, sem oft vill verða hér á þingi.

Ég ætla ekki, eins og ég sagði áðan, að blanda mér inn í það karp, sem um þetta mál hefir orðið hér í d., en samt get ég ekki orða bundizt yfir þeim gorgeir, sem fram kom í ræðu hv. þm. Mýr., þar sem hann segir, að allt sé þegar gert, sem gera þurfti, búið að safna fullnaðarskýrslum af óþurrkasvæðunum, en svo kom það rétt á eftir, að beðið væri eftir þessum skýrslum. Hvernig á að koma þessa saman, skil ég ekki, enda mun það vera svo, að það er beðið eftir þessum skýrslum, sem náttúrlega eru þær einu, sem nokkuð er byggjandi á. En skýrslur, sem byggðar eru á umsögn eins eða tveggja manna í heilli sýslu, eins og skýrslur þær, sem 2. þm. N.-M. hefir verið að safna, eru vitanlega ekki annað en kák og fálm út í loftið, og eru því engar fullnaðarskýrslur. Þetta veit hv. þm. vel og hefði því ekki þurft að fjargviðrast um þetta eins og hann gerði.