13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

60. mál, forðagæsla

Jón Pálmason:

Form. landbn., hv. þm. Mýr., lét þau ummæli falla hér í d., sem ekki var hægt að skilja á annan veg en þann, að hann teldi þáltill., sem ég og hv. 6. þm. Reykv. fluttum, hafa verið óþarfa, og jafnvel að landbn. þessarar d. hafi gengið inn á það. En það er þvert á móti, því allar umr. um þetta mál og eins þetta frv. er sönnun þess, að þær ráðstafanir, sem búið var að gera, gáfu engar fullnægjandi upplýsingar um það, hvernig ástandið í þessu efni er í raun og veru. Hinsvegar verð ég að taka það fram, að ég sá ekki ástæðu til þess að heimta þessa till. okkar undir atkv., hvorki í n. eða hér í d., af því að bæði nm. og hæstv. forsrh. tjáðu sig fúsa til þess að afla þeirra upplýsinga, sem við till.menn fórum fram á, og það er heppilegast gert á þann hátt, að forðagæzlumönnum sé gert að skyldu að gefa upplýsingar og till. í þessum efnum, þess vegna er það, sem hér um ræðir, áframhald af því, sem við till.menn ætluðumst til.

Ég minntist á það í n., að það væri ekki óviðeigandi, að ríkisskipin flyttu þennan fóðurbæti, sem er mikil vara, annaðhvort með lækkaðri fragt eða ókeypis milli hafna, og að það væri sá styrkur, sem ríkið léti beint til þessara manna, sem orðið hefðu fyrir þessum óhöppum.

Hvað því viðvíkur, sem hv. þm. Borgf. minntist á útlenda heyið, þá var það sett í okkar till. sem aukaatriði, að athuga, hvort komið gæti til mála að flytja inn hey. En vonandi kemur ekki til þess, því væntanlega er fáanlegt það mikið hey í landinu, sem þarf til þess að hjálpa þeim mönnum, sem verst hafa orðið úti.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vildi aðeins mótmæla því, að ekki hafi verið full þörf fyrir þessar till. okkar hv. 6. þm. Reykv.