20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. tók fram, var hv. allshn. sammála um að mæla með því, að frv. næði fram að ganga. En nú hefir komið brtt. á þskj. 132 frá 2 hv. meðnm. mínum, sem gerir það að verkum, ef hún verður samþ., að málið er komið inn á nýjan grundvöll.

Ég hefi ekki í hyggju að hefja almennar umr. um það, hvort heppilegra sé, að ríkið eða einstaklingar eigi jarðeignir landsins. Reynslu þá, sem þjóðjarða- og kirkjujarðasölulögin hafa látið í té, taldi hv. frsm. benda til þess, að um afturför sé að ræða. Ég get ekki látið þetta vera ómótmælt. Ég veit ekki, hvernig ástatt er í Múlasýslum í þessu efni. Fjárhagsástandið hefir verið verra þar síðustu ár heldur en víða annarsstaðar, svo að það er ekki óhugsandi, að bændur hafi orðið að sleppa eignarréttinum á jörðunum. Hinsvegar er það svo þar, sem ég þekki bezt til, að jarðir, sem seldar voru 1908, þegar kirkjujarðasölulögin komu, og næstu ár á eftir, eru enn í sjálfsábúð. Þær jarðir, sem voru lágkúruleg kot þá, eru nú blómleg býli. Mér er það í fersku minni, að það var svo þá yfirleitt, að hægt var að rekja úr þær jarðir, sem voru í eign þess opinbera. Þær voru verr setnar, miklu verr hýstar og miklu verr með þær farið en þær, sem voru í sjálfsábúð.

Það er sannfæring mín, að keppa beri að því, að sem flestar jarðir komist í sjálfsábúð, en ekki að vinna á móti anda kirkjujarðalaganna og reyna að koma nýjum jörðum undir yfirráð ríkisins. Fyrir þessu er hægt að færa margvísleg rök, og hefði það verið gert, ef ég teldi ekki farið of langt út frá efninu, hefðu verið teknar upp almennar umr. um þetta mál. Þetta mál gefur í sjálfu sér ekkert tilefni til þess. Það er fullkomlega óeðlilegt að láta samþ. þessi frv., sem marka að nokkru leyti tímamót í því, hvort ríkið eða einstaklingar skuli eiga þjóðjarðirnar. Hér er ekki farið fram á annað en að núv. ástand haldist óbreytt, þ. e. a. s., að ríkið láti af hendi eina jörð og fái aðra jörð, álíka verðmikla, í staðinn.

Ef till. hv. meðnm. minna nær fram að ganga, er málið komið inn á nýjan grundvöll. Það er ætlazt til, að ríkið fái heimild til þess að taka Syðra-Laugaland fyrir prestssetur og selja Saurbæ í þess stað. Verðmismunurinn er ekki nema 3000 kr. Hér er því um lítil útgjöld fyrir ríkissjóð að ræða. Fyrst á annað borð er heppilegast, að prestssetrið sé á þessum stað, álít ég ekki nema sjálfsagt að verða við þeim tilmælum. Eigi ríkið aftur á móti að halda Saurbæ áfram í sinni eign, er hér orðið um talsverð útgjöld að ræða fyrir ríkissjóð. Ég get ekki séð nokkra ástæðu til þess að baka ríkissjóði þau útgjöld.

Hv. frsm. telur heppilegra, að ríkið eigi jarðirnar heldur en einstaklingar. En honum er það væntanlega ljóst, að ríkið er ekki, þrátt fyrir það þótt þetta frv. verði samþ., neitt verr statt í þessu efni en áður. Það fær land, sem er eins verðmikið og það, sem því er ætlað að láta af hendi. Svo það er bara „status quo“.

Vegna þess fyrst og fremst, að ég tel heppilegra, að Saurbær geti komizt í eign þess ábúanda, sem ætlaði að hafa þar búrekstur sinn, heldur en að ríkið eignist jörðina, og eins líka af því, að ég vil ekki, að ríkinu séu bökuð óþörf útgjöld með þessari breyt., þá lýsi ég því yfir, að verði brtt. hv. meðnm. minna samþ., mun ég ekki geta fylgt frv. eftir það. Þá er málið komið inn á allt annan grundvöll. Ég þykist vita, að ekki þurfi mitt fylgi til þess, að frv. gangi fram, en það skiptir ekki miklu máli. En ég vil láta þetta koma skýrt fram, svo að mér verði ekki brigzlað um að hafa skipt um skoðun í málinu frá því að ég skrifaði undir nál.