20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Bernharð Stefánsson:

Ég þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli, þar sem hún leggur til, að frv. verði samþ. — Ég hefi ekki margt að segja um brtt. meiri hl. n. Ég get að sumu leyti vísað til þess, sem hv. 2. þm. Rang. sagði um málið. Það, sem fyrir flm. þessa frv. vakti með því að leggja til, að heimilað yrði að selja Saurbæ jafnframt því sem heimilað yrði að kaupa Laugaland, var það, að við vildum ekki með þessu frv. baka ríkissjóði veruleg útgjöld eins og nú stendur á. Aðalatriðið fyrir okkur er vitanlega það, að Laugaland verði keypt fyrir prestssetur. Þess vegna viljum við þiggja það með þökkum, ef Alþingi vill gefa heimild til þess, að Laugaland verði keypt án þess að Saurbær verði seldur. En ég vil ekki, að þetta komi þannig niður á héraðinu, að talið sé, að það hafi fengið fé úr ríkissjóði með þessu móti, og það verði svo aftur látið koma niður á öðrum framkvæmdum í héraðinu, sem þurfa að fá styrk úr ríkissjóði. Það er ómögulegt að sjá, út af fyrir sig, að ríkissjóður hafi hag af því að eiga Saurbæ. Það má búast við því, að hægt sé að selja jörðina fyrir um 2900 kr. Eftirgjaldið, sem greitt er nú eftir Saurbæ, er samtals um 720 kr. — þ. e. a. s. 400 kr. eru landskuld og 320 kr. eru húsaleiga. Ég býst varla við, að fært þyki að hækka afgjaldið mikið, og sjá þá allir, að það eru ekki háir vextir af þeirri upphæð, sem sennilega má fá fyrir jörðina.

Hv. frsm. n. flutti hér langa ræðu um galla þjóðjarðasölunnar, og lét hann í ljós þá skoðun, að þjóðjarða- og kirkjujarðasölulögin hefðu orðið til ills eins og ekki náð tilgangi sínum. Ég er honum að sumu leyti samdóma og að sumu leyti ekki. Ég tel, að þess hafi ekki verið nægilega gætt, þegar þjóðjarðasölulögin voru sett, að gera um leið ráðstafanir til þess, að jarðir lentu ekki í braski. Aftur á móti er ekki hægt að neita því, að margar jarðir hafa tekið miklum umbótum við það að komast í sjálfsábúð. Ég hygg því, að bezta lausnin á þessu máli hefði verið sú, að ábúendur hefðu getað fengið jarðir keyptar, en að ríkið hefði keypt þær jarðir, sem seldar voru öðrum en ábúanda. M. ö. o., ég álít rétt að setja skorður við því, að einstakir menn eignist jarðir til þess að leigja þær eða braska með þær, en sjálfsábúð tel ég hinsvegar góða. Þó ég nefni þetta, þá er samt óþarfi að tala um þjóðjarðasöluna almennt út af þessu frv., sem við hv. 2. þm. Eyf. berum fram, því að það kemur þessu máli lítið við, eins og hv. 2. þm. Rang. tók réttilega fram, Hér er ekki stungið upp á því, að það opinbera minnki neitt jarðeignir sínar. Okkur hefði ekki komið til hugar að flytja frv. um að selja Saurbæ út af fyrir sig. Hér er um það eitt að ræða að flytja prestssetrið, kaupa eina jörð til prestsseturs og selja í staðinn prestssetursjörðina. Það eru einungis einskonar makaskipti.

Ég mun ekki greiða atkv. með brtt. meiri hl. n., en þó hún verði samþ., þá er ekkert við því að segja. Mér er samt jafnannt um, að frv. nái fram að ganga, því eins og ég hefi áður tekið fram, er aðalatriðið fyrir okkur, að prestssetrið verði flutt að Laugalandi.