20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Jón Baldvinsson:

Ég varð undrandi, þegar. ég heyrði hv. 1. þm. Eyf. halda því fram, að hv. 2. þm. S.-M. hefði engin rök borið fram í ræðu sinni. Ég veit að vísu, að sá hv. þm. getur svarað fyrir sig, en ég vil þó ekki láta hjá líða að benda á að það eru einmitt hin almennu rök um þjóðjarðasölu, sem eiga hér við, þegar verið er að tala um að selja ríkisjörð, þótt í makaskiptum sé. Þeir, sem álíta þjóðjarðasöluna til ógagns, geta því ekki fylgt frv. óbreyttu.

Ég skal þó ekki fara út í hin almennu rök að þessu sinni. Ég er samþykkur því, að 1. málsl. 1. gr. nái samþ. og standi óbreyttur, en brtt. verði samþ. Þá er því náð, sem hv. þm. Eyf., flutningsmenn málsins, óska eftir og telja aðalatriðið, að eignast hentugri jörð fyrir prestssetur. Ég álít feng fyrir ríkið að eignast þessa jörð, en þó því aðeins, að ekki verði seld önnur jörð í staðinn.

Ég skal ekki blanda mér í deilur um verðið og finnst hv. flm. hafa stillt því í hóf, en ég hefði þó betur kunnað við, að í frv. hefði staðið „allt að 32 þús. kr.“, svo að möguleiki væri til að semja um verðið og fá það ef til vill eitthvað lægra, heldur en að slá því alveg föstu í frv., einkum ef það er rétt, að jörðin sé yfirbyggð af þeim, sem nú á hana, og hann vilji gjarnan losna við hana.