20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Bernharð Stefánsson:

Ég er þessu ekki eins kunnugur og hv. meðflm. minn, en ég get gefið þær upplýsingar, að það hefir verið byggð sundlaug á landi Syðra-Laugalands og seldar undan jörðinni um 4 dagsláttur af landi, með tilliti til sundlaugarinnar og fyrirhugaðs skóla. Ég hygg, að þetta skipti litlu máli hvað not á jörðinni snertir. (MG: Ætli það sé ekki frekar til hækkunar en hitt?). Það getur vel verið, að það verði frekar til hækkunar. Annars verð ég að segja, út frá því, sem hv. 4. landsk. og fleiri hafa minnzt á þjóðjarðasölu almennt í sambandi við þetta mál, að mér finnst, að afstaða til hvers frv. eigi að miðast við það, hvaða ástand er nú og hvaða ástand skapast við, að ákveðin lög eru sett. Það ástand, sem í þessu efni er nú, er það, að ríkið á Saurbæ í Eyjafirði, og það ástand, sem hugsað er til að skapa með þessu frv., er, að í staðinn fyrir Saurbæ eignist ríkið Syðra-Laugaland, sem er verðmeiri jörð. Þar af leiðandi get ég ekki séð, að þeir, sem eru á móti þjóðjarða- og kirkjujarðasölu, geti neitt kvartað út af þessu frv., því að það er langur vegur frá því, að ríkið mundi með þessu frv., þó að lögum yrði, skerða eignir sínar; það frekar eykur fasteignir sínar heldur en hitt. Af þessu dreg ég þá ályktun, að þetta mál komi þjóðjarða- og kirkjujarðasölu, almennt séð, alls ekki við. Því að ef við þm. Eyf. flyttum ekki frv. — hvað þá? Þá ætti ríkið áfram Saurbæ, en ætti ekki Laugaland. Ég sé því ekki, að við með þessu frv. sköðum þá stefnu, sem þessir hv. þm. halda fram; ef nokkuð er, þá þvert á móti.