27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það liggja ekki fyrir n. upplýsingar um það, sem hv. 2. þm. N.-M. spurði um. En ég get svarað hv. 8. landsk., frsm. minni hl., því, að ég fæ ekki skilið, hvernig sá ábúandi er gerður, sem vill kaupa jörðina fyrir þetta verð, en á kost á að leigja hana fyrir það verð, sem hv. þm. nefndi. En þó að þetta kunni að vera svo nú, að ábúandinn verði að sæta verri kjörum, ef hann vill kaupa jörðina, þá er engin vissa fyrir því, að svo verði í framtíðinni. Þó að nú kunni að borga sig betur fyrir ríkið að selja jörðina, getur það orðið tap, þegar fram líða stundir. Hefir reynslan orðið sú um sölu kirkjujarða, að hún hefir orðið til lítils hagnaðar fyrir ríkið, en því meiri fyrir kaupendurna. Ætti því ríkið að hætta því að selja sínar jarðir. Hér er a. m. k. engin ástæða til sölunnar. Er það líka lagaleg „tautologi“ að hafa þetta viðlag við 1. gr. frv., þar sem til eru fyrirmæli í l. frá 1907, sem heimila sölu kirkjujarða. Væntanlegur kaupandi er ábúandi á jörðinni og fellur því undir þessi fyrirmæli.