16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Sigurður Kristjánsson:

Eins og hv. frsm. tók fram, þá flytur sjútvn. þetta mál fyrir hæstv. ríkisstj. Það er í samræmi við skoðun allra nm., að það sé ekki réttmætt að taka einstakar tegundir út úr af fiskafurðum og leggja á þær útflutningsgjald eftir magni, heldur að það eina réttmæta sé, að tollurinn sé miðaður við verðmæti.

Nú er á leiðinni hér í þinginu frv., sem fer í þá átt að gera síldartollinn að verðtolli. En ekki er hægt að taka tillit til þessa frv., þó að lögum yrði, fyrir útflutning yfirstandandi árs. Það er þess vegna, ef eitthvað á að gera í þá átt að breyta þessum tolli í verðtoll, að þá þarf að gera það með sérstökum lögum, og þetta frv. mun eiga að bjarga þessu máli við. En það er bert af frv. sjálfu, að hér er ekki um endurgreiðslu að ræða. Í fyrsta lagi er fyrirsögn frv. þannig, að þessu skuli varið til hlutaruppbótar handa sjómönnum, og ég leit líka svo á, að með þessu ætlaði hæstv. ríkisstj. að bæta upp þann hörmulega lága hlut, sem fjöldi sjómanna á síldveiðiskipum bar frá borði síðastl. sumar. Ég tel það vel farið, að hæstv. stj. sér sér fært að fórna þessu fé, og það situr ekki á mér að standa á móti því, að þessum tolli verði breytt, sem hefir rýrt svo hlut bæði sjómanna og útgerðarmanna. En af því að þetta er ekki í eðli sínu endurgreiðsla á tolli, heldur uppbót til sjómanna, þá get ég ekki né samflokksmaður minn í n., hv. þm. Vestm., fallizt á, að þessari uppbót sé skipt niður eftir þeim reglum, sem gert er ráð fyrir í frv. Ef um endurgreiðslu á tolli er að ræða, gengur hann til eigenda síldarinnar, en öll tvímæli ætla ég að tekin séu af um það, að hér sé um styrk að ræða, af því að það á að skipta þessu niður á þá af eigendum síldarinnar, sem unnið hafa á skipunum.

Nú segir í 4. gr., að skipta skuli þessari uppbót í hlutfalli við þá veiði, sem skipin lögðu á land til söltunar, þannig að sjómenn fái uppbót miðað við tunnutölu veiðinnar, þar sem þeir voru ráðnir upp á hlut. Afleiðingin verður sú, að þeir, sem mest hafa borið úr býtum yfir síldveiðitímann, fá stærsta uppbót, en þeir, sem gengið hafa frá borði með mjög lítilfjörlegan hlut, fá litla sem enga uppbót. Þetta vona ég, að hv. þm. sjái, að er rangt hugsað, þar sem þetta á að gera hina rýru hluti viðunanlegri. Að áliti okkar hv. þm. Vestm. ætti uppbótin að vera í öfugu hlutfalli við þann arð, sem sjómennirnir hafa haft af sumrinu. Eftir því, sem ég hefi heyrt, hafa hásetar á síldveiðiskipunum komizt hæst í 700 til 800 kr. hlut. Hafa þó sennilega mjög fáir komizt yfir 600 kr. Svo hafa aftur sumir ekki haft nema 100 kr. hlut. Það er bersýnilegt, að þessir menn, sem margir eru fjölskyldumenn, hafa farið þannig út úr vertíðinni í sumar, að full ástæða er til að bæta þeim það upp. Hitt verður aftur að teljast sómasamlegur arður hjá þeim, sem hafa fengið 600 til 800 kr. hlut eftir tvo mánuði, eða a. m. k. minni ástæða til að veita þeim uppbót.

Ég vildi taka þetta fram f. h. okkar hv. þm. Vestm., að þó við höfum gerzt meðflm. frv., þá áskiljum við okkur rétt til þess að bera fram brtt. við 2. umr. málsins, a. m. k. við 4. gr.