22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 145 við frv. það, sem hér liggur fyrir. Við 2. umr. þessa máls hér í d. spunnust nokkrar umr. um það, hvernig ætti að skilja greiðslu þá, sem frv. gerir ráð fyrir úr ríkissjóði til handa sjómönnum. Hv. þm. Ísaf. hélt því fram, að greiðsla þessi væri hlutaruppbót og mætti því skoðast sem endurgreiðsla úr ríkissjóði til sjómanna, og bæri því þeim sjómönnum mest, sem heppnastir hefðu verið og aflað bezt. Ég fyrir mitt leyti get ekki fullizt á, að þessi skoðun sé rétt. Greiðsla þessi er gerð um alla skyldu fram og því samningsatriði við löggjafann, að sjómenn fái þetta fé. Væri hér um endurgreiðslu að ræða, þá ætti féð vitanlega að greiðast til þeirra, sem áður hafa greitt það, og því ekki aðeins til sjómanna, heldur og til síldarsaltenda og útflytjandans. Þar sem því hér er um að ræða endurgreiðslu, er engin skylda að greiða þeim mest af fé þessu, sem bezt hafa aflað.

Þá eru aðrir, sem halda því fram, að hér sé um að ræða styrk til sjómanna, og því eigi þeir að fá mest, sem aflað hafa minnst, svo allir beri sem jafnastan hlut frá borði að vertíðarlokum. Ég get heldur ekki fallizt á, að þetta sé rétt, því að þá þyrftu að liggja fyrir upplýsingar um ástæður og efnahag hlutaðeigandi manna, því að ekki getur ríkisvaldið farið að ganga inn á þá leið, að styrkja þá, sem ekki þurfa styrks með. Það getur því ekki talizt rétt að kalla þetta styrk. Mér virðist því, að hér sé um það eitt að ræða, að menn hafi orðið ásáttir um, að útflutningsgjald af síld væri ósanngjarnt, en að það hafi orðið að innheimta það sökum ákvæða laganna, og því sé rétt, að það gangi til sjómanna. Ég hefi því komið með brtt., sem tryggir það, að féð skiptist sem réttlátast á milli sjómannanna. Brtt. mín hljóðar svo: „Uppbótin er aðeins til skipverja, sem tekið hafa hlut úr síldarafla, veiddum til söltunar eða sérverkunar, og skal hún skiptast jafnt milli þeirra án tillits til hlutaruppbótar hvers skipverja, þó þannig, að tillit skal tekið til þess, hvern tíma skipverjinn vann við veiðina.“ Þetta finnst mér réttlátt og sanngjarnt, að því fé, sem greitt er úr ríkissjóði umfram skyldu, skuli skipt jafnt á milli, því að vart mun hægt að finna góð rök fyrir því, að það sé sanngjarnt, að sá, sem aflað hefir 1000 kr., skuli fá 10 sinnum meira en hinn, sem aðeins hefir aflað 100 kr. Með því að skipta fé þessu eins og ég legg til fá allir jafnt, eins og þeir hafa rétt til, og því ekki hægt að segja, að einum hafi verið ívilnað frekar en öðrum.

Þá á ég á sama þskj. brtt., er snertir skipun n. þeirrar, sem úthluta á fé þessu. Frv. gerir ráð fyrir, að n. þessi sé skipuð einum manni frá Sjómannafélagi Hafnarfjarðar, einum frá Sjómannafélagi Reykjavíkur, og þann þriðja skipi ríkisstjórnin. Ég legg aftur á móti til, að í stað þess að Sjómannafélag Hafnarfjarðar tilnefni einn manninn, þá skal hann útnefndur af útgerðarmannafélagi Akureyrar. Ég get vel hugsað mér, að ýms önnur stéttarfélög hafi eins mikla ástæðu til þess að fá mann í n. eins og þessi, en ég tel bara enga ástæðu að hafa hana skipaða fleiri en þremur mönnum. Að láta tvö sjómannafélög hér sunnanlands útnefna menn í n. þessa, er vitanlega ekkert réttara heldur en f. d. að láta sjómannafélög Akureyrar eða Siglufjarðar útnefna þá. En ég tel sanngjarnt, að útgerðarmenn fái einhvern íhlutunarrétt í þessu máli, og fyrir því legg ég til, að útgerðarmannafélag Akureyrar útnefni einn manninn. Útgerðarmennirnir hafa hér nokkurra hagsmuna að gæta og munu því vilja fylgjast með því, hvernig fénu er úthlutað.