22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Jón Pálmason:

Ég hefi ekkert blandað mér í þetta mál, en vil þó ekki láta það fara út úr d. án þess að segja skoðun mína á því, einkum vegna þess, að svo virðist sem ég hafi nokkra sérstöðu í afstöðu til þess. Það má með sanni segja, að ýms undarleg mál hafi komið fram á þessu þingi, en þetta mun þó einna undarlegast. Það hefir ekki verið farið dult með það, að fjárhagur ríkissjóðs væri ekki góður, og hefir hæstv. fjmrh. hvað eftir annað látið það í ljós undir umr. hér í þinginu, og er enda kunnugt af öllum þeim gögnum, sem fyrir þinginu liggja. Þeim mun undarlegra er það, að stj. skuli leggja það til, að farið sé nú að taka 120 þús. kr. af tolltekjum ríkissjóðs og skipta því á milli sjómanna, að því er virðist án allra nauðsynja. Ég skal fúslega játa, að ég hefi verið þeirrar skoðunar og er enn, að há útflutningsgjöld á framleiðslu landsmanna séu ósanngjörn, og get því vel fylgt till. til breyt. á þeim, en hitt finnst mér undarlegt, að fara að láta slíkar breyt. verka aftur fyrir sig, eins og hér á að gera.

Að hér geti verið um endurgreiðslu að ræða, verður að teljast mjög vafasamt, þar sem þeir eiga ekki að fá peningana, sem hafa greitt þá áður, sem í þessu tilfelli eru útgerðarmenn og að nokkru leyti sjómenn. Ef gengið yrði inn á þá braut, eins og hér er stefnt að, að láta breyt. á tolla- og skattalöggjöfinni verka aftur fyrir sig, myndi óhjákvæmilega verða erfitt að hafa hemil á þessum hlutum, og tel ég því, að löggjafarvaldið verði að forðast slíkt, því margt mjög fáránlegt mundi af því leiða. En verði nú að því horfið að greiða fé þetta úr ríkissjóði, þá hefði ég talið réttara að verja því til einhverra hagsbóta fyrir síldveiðimennina í komandi tíð heldur en að skipta því á milli þeirra nú. Það hefði verið miklum mun eðlilegra, þar sem líka engar upplýsingar liggja fyrir um það, að þeir sjómenn, sem síldveiði stunduðu síðastl. sumar, hafi á nokkurn hátt haft lakari atvinnu en aðrir sjómenn og verkamenn þessa lands. — Að síðustu skal ég taka það fram, að ég tel brtt. hv. 8. landsk. sanngjarnar, ef ganga á inn á þessa braut, en eðlilegast teldi ég, að frv. yrði fellt, og mun hiklaust greiða atkv. gegn því.