22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég tek til máls, ekki vegna þess, að ég sé útgerðarmaður eða lögfræðingur eða neitt slíkt, heldur vegna þess, að þessi mál voru flutt fyrir fráfarandi ríkisstj. um skeið. Það voru fluttar óskir fyrir stj. um það, að síldartollurinn væri ekki innheimtur í sumar, til þess að útgerðarmenn gætu greitt og sjómenn gætu fengið hærra kaup fyrir sinn afla en ella. Þessum óskum sjómanna og útgerðarmanna gat fyrrv. stj. ekki svarað. Tollinn var skylt að innheimta, og ef um tryggingu var að ræða fyrir endurgreiðslu, þá var ekki hægt að fá hana hjá öðrum en þingflokkum, og þess vegna vísaði fyrrv. stj. algerlega til þingflokkanna öllum samtölum um þetta efni. Nú urðu stjórnarskipti og áframhaldandi umtöl um þessar endurgreiðslur, eða niðurfellingu tollsins, og eftir því, sem mér hefir verið skýrt frá, þá hafa loforð um endurgreiðslu tollsins, eða máske niðurfellingu hans framvegis, haft afgerandi áhrif á samninga um kaup á síld. Öll þessi samtöl á því stigi málsins voru vitanlega á grundvelli þeirra ráðningarsamninga, er gilda við þennan atvinnuveg. Ég get ekki litið öðruvísi á en svo, að þessi endurgreiðsla sé ekki styrkur, heldur sé hún partur af kaupi, partur af því kaupi, sem sjómenn hafa gert ráð fyrir að fá, þegar þeir fóru af stað. Af þessu er mitt atkv. bundið um þær till., sem nú hafa komið fram. Atkv. mitt er bundið í þessu máli, því að það er áreiðanlega um part af kaupi að ræða, eftir þeim reglum, sem útgerðarmenn og sjómenn hafa haft í samningum sínum.

Á því stigi málsins var út af fyrir sig ekki vitað, hvort sjómenn mundu hafa rýrar tekjur eða ekki, svo að þá var þetta mál alls ekki rætt frá því almenna sjónarmiði, hvort þetta ætti að vera styrkur til sjómanna, sem færu illa út úr sumarstarfi sínu. Nú hefir sú hugsun komið hér fram, að rétt sé að styrkja sjómenn, ef þeir fara illa út úr sumarvinnu sinni. Ég get vel hugsað mér að fylgja þeirri reglu í framtíðinni, að láta síldartollinn haldast og útdeila honum á eftir til þess að jafna kjör sjómanna. Slíkri till. treysti ég mér vel til að fylgja, ef hún kæmi fram, fyrir framtíðina. Það er lítið gagn í því að vera með styrk í ár og leggja alla áherzlu á, að honum sé réttilega skipt milli manna, eftir því hve mikla þörf þeir hafa fyrir uppbót á atvinnu sína, en kasta svo frá sér öllum möguleikum til þess að gera þetta í framtíðinni. Þeir, sem fylgja þessu í alvöru, eiga að leggja höfuðáherzluna á, hvernig hægt sé að koma þessu fyrir í framtíðinni. Ég vildi því frekar fylgja slíkri till. um framtíðina, þar sem ég er ekki sannfærður um, að niðurfærsla á síldartollinum komi á allan hátt til góða sjómönnum og útgerðarmönnum, meðan full samkeppni er um sölu síldar út úr landinu. Meðan ég var í stj. var gerð ein tilraun til þess að hjálpa síldarútgerðinni með niðurfærslu á tolli. Hún var sú, að heimilað var að endurgreiða sykurtoll og kryddtoll. Nú hefi ég það fyrir satt frá sumum stærstu útgerðarmönnunum, að þessi tollniðurfærsla hafi ekki komið útgerðinni að neinu gagni, heldur hafi hún lent í vösum erlendra milliliða, sem síldina keyptu. Þegar út fyrir pollinn kom og átti að selja, sögðu kaupendurnir: Nú hefir framleiðslukostnaður hjá ykkur minnkað vegna tollendurgreiðslu, og þess vegna getið þið selt ódýrar. — Þegar svo sá fyrsti hafði orðið að lækka verðið á síldinni í tilefni af þessu, urðu allir að gera það. Hvort afnám tolla kemur að gagni atvinnuvegunum, er töluvert háð því, hvernig salan fer fram á erlendum markaði.

Ég hefi svo ekki fleiri orð um þetta, en mun greiða atkv. út frá því sjónarmiði, að hér sé um kaupendurgreiðslu að ræða, en ekki styrk, sem sé verið að taka ákvörðun um, hverjir skuli hljóta.