22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Hv. 3. þm. Reykv. bar mér á brýn, að ég hefði lofað öllu fögru og komið með sæmilegar till. í málinu, en tekið síðan allt aftur. Ég sagði, að það mundi vera bundið af ýmsum að fylgja endurgreiðslu síldartollsins í ár, þó að aðrar reglur kynnu að gilda um framtíðina. Ég gat þess, að síðasta ríkisstj. hefði sem stj. engin loforð gefið, en að ég sem þm. eftir kosningarnar gæti eigi að síður hafa gefið loforð um, hvernig ég greiddi atkv. í málinu. Í meðferð málsins hefir alltaf verið gengið út frá því, að hér væri um kaup sjómannanna að ræða, en ekki styrk til þeirra, og mér finnst það atriði, að útgerðarmenn hafa enga kröfu gert um endurgreiðslu á tolli til sín, vera full sönnun þess, að hér sé aðeins um kaup sjómannanna að ræða. Ef hitt væri aðalatriðið, að síldartollurinn ætti að vera lægri, þá ætti að endurgreiða hann þeim, sem greitt hafa. En um það hefir engin ósk komið fram hér, og styður það þá skoðun, að á þetta hafi verið litið sem kaup sjómannanna. Ég er því í fullu samræmi við sjálfan mig í þessum till. Mér er það ánægja, ef einhverjir vilja fylgja till. mínum um skipulag á þessu máli í framtíðinni, en hvort ég ber þær till. fram í þinginu, fer eftir því, hve öflugan stuðning ég fæ til þess hjá hv. þm. Hitt er rétt, að ekki er hægt að segja, að Alþingi allt sé bundið af þeim samtölum, er fram fóru um þetta mál í sumar.