22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. Ísaf. talaði um, að Sjálfstfl. hefði sýnt tvískinnung í baráttu sinni fyrir réttlætinu í síldartollsmálinu. Þessu vil ég eindregið mótmæla, og skal ég í því sambandi henda á, að sú verulegasta lækkun, sem fengizt hefir á síldartollinum án þess að vera bundin pólitískum undirmálum eins og hér, fékkst fyrir forgöngu Sjálfstfl. Á Alþingi 1931 bárum við hv. þm. Ak. fram frv. um lækkun á síldartollinum um helming. Þá áttu sæti í n. þeirri sem fjallaði um málið, 3 þm. úr Framsfl. og 2 úr Sjálfstfl. Einn þessara nm. var hv. þm. V.-Ísf., sem þá var í þann veginn að verða fjmrh. flokksins. Þessir þrír Framsfl.menn, sem voru meiri hl. n., leituðu álits síns flokks um það, hvort hægt væri að ganga eins langt um lækkun tollsins og við hv. þm. Ak. lögðum til. Að því loknu kom form. n., fyrrv. 1. þm. S.-M., með þau skilaboð á nefndarfund frá stjórnarflokknum, að hann mundi samþ. lækkun á tollinum úr kr. 1.50 niður í 1 kr., að því tilskildu, að Akureyrarkaupstaður og Siglufjörður færðu niður hafnargjöld og önnur slík gjöld, og var þetta síðan lögfest. Við fengum að vísu dálítil skútyrði frá einum jafnaðarmanni, sem þótti við hafa sætt okkur við of litla niðurfærslu, en við urðum að þola það, því að Framsfl. fékkst ekki til að lækka þetta meira. Með þessari frásögn vildi ég sýna, að Sjálfstfl. hefir af ástæðum, sem með öllu voru lausar við pólitískt mall, fengið þennan toll lækkaðan. En það var ekki fyrr en komið var út í stórpólitísk viðskipti milli jafnaðarmanna og Framsfl., að Framsfl. öðlaðist þá sannfæringu, að rétt væri að lækka síldartollinn. En samningar þessara flokka, eða „rauða stjórnarskráin“, sem oft hefir verið vitnað í, var eigi grundvölluð á réttlætisatriðum, heldur þurftu jafnaðarmenn að fá framgengt þeirri kröfu sinni í vor að nota síldartollinn til þess að knýja fram kauphækkun. Nú er því haldið fram, að þingið sé bundið af þeim samningum, sem broddar flokkanna hafa gert á bak við tjöldin. En ég vil minna hv. þm. á, að stjskr. segir, að enginn þm. sé bundinn af öðru en sannfæringu sinni. Hv. þm. V.-Ísf. o. fl. halda því fram, að hér geti verið um bindandi loforð að ræða. Það er kannske rétt um hv. þm. V.-Ísf., sem ófyrirsynju bindur atkv. sitt fyrir þing, að honum sé vandi á höndum. En um slíkt getur ekki verið að ræða fyrir Alþ. í heild. Því hefir verið haldið fram, að lögskráningin á skipin beri þess vott, hver tilætlunin hafi verið í þessu efni, en þó að svo kunni að hafa verið sumstaðar, er hv. þm. vel kunnugt, að þannig hefir það eigi verið alstaðar. Nú er það fyrirhugað að ganga framhjá útgerðarmönnum og afhenda sjómönnum féð, þó eigi á þann hátt að bæta úr þörf þeirra, sem verst hafa orðið úti, heldur er ætlazt til, að þeir, sem mest hafa úr býtum borið, fái stærstan skerf. Við hv. 6. þm. Reykv. sáum, að á því gat leikið vafi, hvort rétt væri að leggja til, að eigendur skipanna fengju ekkert af þessu fé, því að það er víst, að margir þeirra standa svo höllum fæti, að vafasamt er, hvort þeir geta haldið bátum sínum, og þó að þörfin sé mikil hjá sjómönnum, mun hún eigi minni hjá hinum. Þó varð það úr að gera eigi kröfu í þessa átt, heldur samþ., að þetta félli til sjómanna. Við sáum, að hér var eigi um endurgreiðslu að ræða, heldur styrk til eins aðilans. En til þess að hafa hreinan skjöld gagnvart sjómönnum þótti okkur rétt að leggja til, að þeir sjómenn fengju mestan styrk, sem mesta þörf hefðu fyrir hann. Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að engin krafa í þessu efni hefði komið frá útgerðarmönnum, og væri það full sönnun þess, að þeir hefðu ekki búizt við að fá neina endurgreiðslu. En við, sem mælum með framgangi málsins, gerum það af því, að við lítum svo á, að hér sé ekki um endurgreiðslu að ræða, heldur styrk til sjómanna. Ef um endurgreiðslu væri að ræða, ætti féð að ganga til útgerðarmanna og þeir síðan að skipta því samkv. lögskráningunni. En hér er valin önnur leið. Ég þykist nú hafa afsannað, að Sjálfstfl. hafi sýnt kæruleysi í þessu máli. Hv. þm. Ísaf. hefir sannað, að forustumenn Sjálfstfl. eru þess ófúsir að binda þm. flokksins á klafa áður en á þing kemur, þó að samherjar hans geri það. Hv. þm. vita, að stjskr. ætlast til, að þm. hafi óbundnar hendur, og Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki brjóta þau lög.

Um brtt. hv. 8. landsk. skal ég segja það, að að svo komnu máli hallast ég fremur að því að hafa þá skiptingu, sem hann leggur til, heldur en að gera þetta svo rangt sem unnt er, eins og frv. gerir ráð fyrir.