22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég ætla aðeins að gera stutta aths. — Hv. 9. landsk. kvað ekki vera að vænta neinnar till. frá mér til jöfnunar á kjörum manna í þjóðfélaginu. Nú vill svo til, að hv. 9. landsk. verður að játa, að brtt. mín á þskj. 145 er til jöfnunar á kjörum sjómanna eftir síldarvertíðina í sumar. Ég hefi ekki borið þá till. fram að gamni mínu, heldur í fullri alvöru, og mun ég fylgja því fram eins og ég álít réttast. Ef hv. þm. vildi fara eftir því, sem réttast er í þessu máli, þá greiddi hann atkv. með þessari till. minni. En það vill hann ekki gera, einungis vegna þess, að till. kemur frá mér, en ekki flokksbræðrum hans.

Hv. þm. sagði, að ég hefði ekki haft rétt eftir sér ummæli sín. Ég tók þau rétt upp, en það var hann, sem leiðrétti þau sjálfur. Ég skrifaði þau orðrétt niður hjá mér: Endurgreiðsla eða styrkur; þar er aðeins deilt um orð. Það skiptir engu máli. — Þannig voru orð hans. Aftur á móti er það ég, sem get sagt, að hv. þm. hafi ekki farið rétt með orð mín. Ég má segja, að hv. 9. landsk. hafi haft það eftir mér, að ég hafi sagt, að hann væri neðar en ég í mannfélaginu. Ég sagði, að hann væri á eftir mér hvað þetta landskjörsnúmer snertir. Það taldi ég eina muninn, sem ég vona, að verði meiri næst. En það er ekki, eins og gefur að skilja, neinn mannjöfnuður á því, hvor sé neðar í mannfélaginu.