24.10.1934
Efri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég hafði búizt við því, að hæstv. atvmrh. mundi reifa þetta mál hér í hv. d. Ég veit, að málið hefir vakið talsverðar umr. í hv. Nd., en ég hefi ekki getað fylgt svo vel þeim umr., að ég hafi eftir þeim getað tekið ákveðna afstöðu til málsins. Það er víst, að hér er óvenjulegt mál á ferðinni, og því virðist full ástæða til þess, að hæstv. stj. gæfi þinginu skýrslu um það, hvernig máli þessu er farið. Hve mikið það er af síldartollinum, sem á að greiða eftir þessu frv., veit ég ekki; um það stendur ekkert í grg. frv., eða hvort þessi tollur er þegar innheimtur. Ennfremur er ekkert upplýst um það, hvort kjör þeirra manna, sem eiga að fá þennan styrk, eru lakari en almennt gerist meðal verkamanna hér á landi.

Ég verð að telja það talsvert hættulega braut, sem lagt er út á, ef ríkissjóður ætlar að fara að endurgreiða af sínum tekjustofnum til ýmsra stétta þjóðfélagsins. Það mætti alveg eins hugsa sér, að tekju- og eignarskatturinn væri látinn ganga til verkamanna í Rvík, eða kaffi- og sykurtollinum skipt milli bænda. Það getur verið, að einhverjar sérstakar orsakir liggi til grundvallar fyrir þessu frv., en þá væri æskilegt að fá að heyra þær.

Mér hefir heyrzt á hæstv. fjmrh., að hagur ríkissjóðs væri þannig, að ekki væri fært að ausa fé hans út að ástæðulitlu, og ég vil því vænta þess, áður en mál þetta fer lengra, að hæstv. atvmrh. gefi skýrslu um málið.