24.10.1934
Efri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég hefi í raun og veru enga skýrslu að gefa í þessu máli, en get þó skýrt frá því, hver áhrif þetta frv. er talið munu hafa fyrir ríkissjóð. Einnig má geta þess, að kjör þeirra verkamanna, sem síldveiði hafa stundað á þessu ári, eru mjög slæm.

Eftir því, sem upplýst var í hv. Nd., má gera ráð fyrir, að endurgreiðsla úr ríkissjóði samkv. þessu frv. muni nema um 120 til 130 þús. kr. Það er gert ráð fyrir að endurgreiða þann hluta síldartollsins, sem hann er hærri en útflutningsgjald af öðrum útfluttum sjávarafurðum.

Um kjör þeirra manna, sem síldveiðina stunduðu í sumar, hefi ég engar sérstakar upplýsingar að gefa nema það, sem almennt er vitað, að afli var í heildinni mjög með rýrara móti í sumar og hlutir manna því minni en venjulega, bæði fyrir lítinn afla og eins hitt , að aflinn skiptist milli fleiri skipa nú en áður.

Hv. þm. talaði um það, að lagt væri út á varhugaverða braut með þessu frv. Eins og kunnugt er, hefir Alþfl. barizt fyrir lækkun síldartollsins nú í mörg ár. Upphaflega var þessi tollur kr. 1.50 á tunnu, en var lækkaður árið 1933 niður í 1.00 kr. Ég ætla, að enginn tollur hér í lögum hafi nálgazt það að vera svo hár sem þessi tollur. Hann var upphaflega miðaður við útlenda veiðimenn, en þeir dagar eru nú löngu liðnir, að ástæða sé til að miða við veiði útlendinga þennan gífurlega skatt. Í sumar var verð á hverri síldartunnu aðeins 5 kr., og verður þá útflutningsgjaldið eitt 20% af brúttóverðinu, og þó er ekki allskostar rétt að miða við það eitt.

Ég verð því að halda því fram, að fullkomin ástæða sé til þess að koma fram með þetta frv. nú, og einmitt með tilliti til þess, hve síldveiðin var erfið síðastl. sumar, þá sé stj. heimilað að endurgreiða það, sem hér er farið fram á, þ. e. a. s. mismuninn á síldartollinum og öðrum venjulegum framleiðslutollum. Hv. þm. mun kunnugt, að fyrir Alþ. liggur nú frv. um, að útflutningsgjald af síld verði lækkað til samræmis við annað útflutningsgjald í framtíðinni.