03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég lít svo á eins og fleiri, að þetta frv., sem hér er um að ræða, sé fram komið til þess að bæta afkomu sjómanna á síðastl. sumri. Það væri ástæðu til þess að athuga, hvort þessi eftirgjöf á tolli hefði ekki átt að skiptust meðal fleiri sjómanna heldur en þeirra, sem stunduðu síldveiðar. En það mun nú varla verða samþ. hér, eftir því sem þetta mál hefir legið fyrir hv. Nd., svo það þýðir ekkert að ræða um það. En þá er það hin hliðin, hvort rétt sé af ríkisvaldinu, þegar það veitir fé til þess að hjálpa eða styrkja með einhverja þá, sem hafa haft lélega atvinnu eða afkomu á einn eða annan hátt, að ganga inn á þá braut að styrkja þá mest, sem hafa þó fengið skárstu afkomuna, en þá minnst, sem hafa orðið verst úti. Um þetta hefir verið deilt í Nd., og eftir því sem atkvgr. fór þar, er sýnilegt, að það þýðir ekki að ætla sér að halda uppi málstað þeirra, sem lakast urðu úti á síðastl. sumri. En þá finnst mér rétt að taka það næstskársta, að mínu áliti, og gera dálítinn jöfnuð milli þeirra, sem minnst fiskuðu og minnstar höfðu tekjurnar, og þeirra, sem mest fiskuðu og hæstar höfðu tekjurnar. Hv. frsm. meiri hl. vill halda því fram, að gerðir hafi verið samningar um þetta mál í byrjun síldveiðitímans, þannig að sjómenn hefðu bundið sjálfa sig einhverjum samningum um það, að svona skyldi jafna niður gjaldinu, að þeir, sem mest bæru úr býtum, skyldu fá hæsta uppbótina, ef þessi tollur væri lækkaður eins og hér er gert ráð fyrir í frv. og allir eru sammála um, að gert verði. Ég hefi átt tal við sjómenn að vestan, og þeir hafa sagt, að samþ. hafi verið í sjómannafélaginu eitthvað á þá leið, að stuðla að því, að síldarverðið gæti orðið 7 kr. til skipverja og útgerðarmanna, en ekki hafi verið sett nein skilyrði með ráðningarkjörum sjómanna.

Nú er það vitað, að það eru þó nokkuð mörg skip, og þá helzt þau, sem mest höfðu aflað, sem seldu talsvert af sinni veiði fyrir 10 —12 kr. tunnuna, og jafnvel eru dæmi til þess, að sjómenn og útgerðarmenn fengu 14 kr. fyrir tunnuna af einhverjum hluta síldarinnar seinast á vertíðinni. Mér er líka kunnugt um, að skip hafi selt meira en þriðjung af aflanum fyrir 10 kr. tunnuna. Ég gæti nefnt þess dæmi, þó ég vilji ekki draga það inn í umr. hér á þingi. Til þess hefi ég varla heimild. En ég gæti nefnt hv. frsm. þess dæmi, að síldveiðiskip hafi fengið yfir 8 kr. jafnaðarverð fyrir tunnuna. Mér þykir það því hastarlegt, að þeir, sem fengið hafa þetta verð, skuli fá fullu uppbót á alla sína síld, en þeir, sem hafa selt fyrir 5 —5.50 kr. tunnuna, skuli bera minna úr býtum, og ef þeir hafa fiskað minna, þá miklu minni uppbót. Ég held, að meiri hl. geti ekki hrópað á það, að með minni brtt. séu brotnir neinir samningar. því það er tekið fram í brtt., að það skuli ekki veita þeim sjómönnum uppbót, sem fengu yfir 7 kr. jafnaðarverð fyrir hverja tunnu, en öllum þeim, sem þar væru fyrir neðan. Annars er það, eins og ég gat um áðan, hálfleiðinlegt að afgr. hjálp til sjómanna með slíkri skiptingu. Ég þekki a. m. k. 1 —2 dæmi þess, að vélar skipsins biluðu á miðri vertíðinni, og sjómennirnir voru á annan mánuð atvinnulausir meðan þeir biðu eftir vélaviðgerðum. Fyrir bragðið fengu þeir ekki nema helming þess afla, sem þeir annars hefðu fengið, og það á líka að sjá það við þá, að þeir fengu lítinn afla, með því að þeir fá minni uppbót af því fé, sem ríkissjóður veitir. Ég verð að segja það, að mér finnst hv. Alþingi vera það illa sæmandi að vera sammála um það í höfuðatriðunum að veita slíku uppbót og mismuna mönnum svo herfilega sem gert er með þessari úthlutunartill., sem hér liggur fyrir. Vænti ég, að mín miðlunartillaga, sem ekki kemur í bága við áður gerða samninga eða samkomulag, nái samþ. deildarinnar.