03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. var að tala um pólitíska spillingu. Ég get sagt honum, að ég er tilbúinn að tala við hann um hana hvenær sem hann vill. Annars var ég að svara hæstv. atvmrh., en ekki honum. En hæstv. forsrh. hefir víst fundizt kollega sinn óþarflega skjótur til svars og viljað gefa honum ofanígjöf fyrir framhleypnina.

Viðvíkjandi úthlutun síldartollsins sagði ég, að það væri órannsakað mál, hve mikið sjómennirnir hefðu haft upp úr þeim tíma ársins, sem þeir voru eigi við síldveiðar. En það er kóróna réttlætisins í þessu frv., að láta þá hafa mesta uppbót, sem mest hafa haft upp úr síldarvertíðinni, jafnvel þó að þeir hafi líka haft mest upp úr öðrum tíma ársins. Það liggur í augum uppi, að í þessu er engin sanngirni. Ef veita á uppbót, þá á hún að fara til þeirra, sem verst hafa orðið úti. Það ætti að vera auðvelt að fá skýrslu um hag og afkomu þessara manna um áramót, þegar þeir telja fram til skatts. Að þessi greiðsla snerti ekki útgerðarmenn, er rétt að því leyti, að hún er ekki beinlínis tekin úr þeirra vasa. En það var samið um þetta áður en nokkur vissi, hvernig gengi með síldveiðina. Þetta var gert til að ná samkomulagi tveggja flokka um að mynda stjórn. Ég kallaði þetta pólitíska spillingu. Hv. frsm. meiri hl. fannst ég hlutdrægur í þessu máli. En mér finnst sanngjarnt, þegar úthlutað er 130 þús. kr. úr ríkissjóði, að það sé gert eftir þeim reglum, sem venja er til þegar á að hjálpa þeim, sem hart hafa orðið úti, að þeir fái mest, sem minnst hafa borið úr býtum. Ég held því fram, að það sé ekki sanngjarnt að miða aðeins við síldveiðitímann, heldur eigi að miða við afkomu manna eftir allt árið, og úthluta uppbótinni eftir því. En afkomuna er auðvelt að fá að vita um áramót. Það hefir verið sagt, að útgerðarmönnunum kæmi þetta ekki við. En ef síldveiðin hefði gengið illa, ætli sumir útgerðarmenn hefðu þá ekki haft lítið upp úr vertíðinni? Það verður að hugsa um þessa menn líka. Þeir eru borgarar þjóðfélagsins ekki síður en hinir, og þeir mundu ekki lengi haldast við, ef útgerðin borgaði sig ekki ár eftir ár. Mér er nú raunar á móti skapi að þvæla mikið um þetta. Það mun þegar vera ákveðið, hvernig þessi skipting fari fram. En það er þó sá minnsti réttur, sem andstæðingar stj. geta tekið sér, að skýra frá sinni afstöðu og hvað þeir hefðu gert í þessu máli og öðrum.