03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. færði fram þau einu rök, sem hægt er að færa fyrir þeirri skiptingu þessarar uppbótar, sem frv. fer fram á, þau, að ef síldartollurinn væri ekki svona hár, þá kæmi það sjómönnunum að gagni í svipuðu hlutfalli eins og ákvæði frv. mæla fyrir. En hæstv. atvmrh. tók ekki tillit til þess, að þessi aðferð er alveg einsdæmi. Hér er ekki um það að ræða að lækka toll, heldur er farið fram á að láta ákvæðin verka fram fyrir sig. Þetta er því beint framlag úr ríkissjóði, sem færð eru rök fyrir, að sjómenn þurfi að fá vegna lélegrar afkomu á vertíðinni. Málið horfir þá þannig við, að þetta er bara hallæris- eða vandræðahjálp til stuðnings ákveðnum hóp manna. En þá koma til greina allt aðrar reglur um skipting þessa fjár. Þá er vitanlega sjálfsagt að skipta þannig, að þeir fái mest, sem mesta þörf hafa fyrir stuðning. Ákvæði frv. um skiptinguna eru því alveg þvert á móti því, sem ætti að vera. Það er sennilega ekki til neins að ræða þetta eða bera fram brtt., en það er eins og hv. sessunautur minn (MG) sagði, að sá minnsti réttur, sem við getum tekið okkur, er að benda á ranglætið í þessu. Ég minntist á það við 1. umr., hve ósanngjarnt væri að miða aðeins við síldveiðitímann, en ekki ársafkomuna. En það liggur í augum uppi, að úthlutunin kæmi réttlátlegar niður, ef miðað væri við ársafkomuna. Það hefir komið til orða, hvort hér væri um pólitíska spillingu að ræða. En það mun mála sannast, að skoðanir flokkanna séu mismunandi um það eins og annað, hvað pólitískt velsæmi sé. Ég þarf ekki að svara hæstv. forsrh. Hann stóð hér upp til að segja, að hann ætlaði ekki að ræða málið, og endurtók þetta þrisvar eða fjórum sinnum. Það hefði nú verið bæði billegra og hentugra að segja þetta á þann hátt að sitja kyrr. Ef litið er á, hvernig þetta mál er til komið, þá var það þannig að stjórnarflokkarnir höfðu gert með sér fast samkomulag um afgreiðslu þess áður en þing kom saman. Frá sjónarmiði okkar andstæðinganna er það pólitísk spilling, þegar flokkar ráðstafa þannig málum fyrirfram og hafa að engu tillögur, sem fram koma á þinginu. Það er að gera þingstörfin að skrípaleik, og mér finnst það stappa nærri pólitískri spillingu, þegar flokkar semja þannig, að þeir ganga á víxl frá fyrri skoðunum til þess að halda völdum.

Skal ég svo ekki tefja fyrir umr., en ég mun fylgja till. minni hl. í þessu máli, ekki af því, að ég viðurkenni ekki ástæðu hæstv. ráðh., viðvíkjandi því, hvernig þetta eigi að skiptast á eðlilegum tímum, heldur af því, að ég lít á þetta sem nokkurskonar kreppulánahjálp eða styrk frá ríkissjóði til þeirra, sem hafa farið illa út úr síldveiðinni í sumar. Þessari kreppuhjálp finnst mér eiga að úthluta eins og hverjum öðrum styrk, þannig, að þeir fái mest, sem þurfa mest.