03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er óþarfi að leiðrétta umsögn hv. þm. um upptök 7 kr. verðsins. Mér er kunnugt um það, og það þarf enga sérstaka skerpu til þess að sjá það út, að útgerðarmenn vilja frekar hátt verð en lágt fyrir sínar vörur. Þetta liggur vitanlega í augum uppi. Það eru vitanlega sameiginlegir hagsmunir beggja aðilja, útgerðarmanna og sjómanna, að verðið sé hátt, sérstaklega þegar margir menn eru ráðnir upp á hlut. Hvers vegna er nú aðeins annar aðilinn tekinn út úr, þegar þessar vonir hafa brugðizt? (SÁÓ: Af því að hann er veikari). Hann er veikari, segir hv. þm. Hinn getur líka verið veikur. Það hafa margir gert út og borið skarðan hlut frá borði, vegna þess hve verð afurðanna hefir verið lágt. Þess vegna væri hugsanlegt, ef tekið væri tillit til fullkominnar sanngirni í þessu efni, að athuga, hvort ekki væri ástæða til þess að ætla, að smáútgerðarmenn hefðu þörf fyrir eitthvað af þeim peningum, sem ríkisjóður á að láta af hendi í þessum tilgangi.

Það var óþarfi að upplýsa það, að krafan um hærra verð var sameiginleg fyrir báða aðila. (SÁÓ: Hv. þm. sagði, að þetta hefði verið blásið upp). Já, ég sagði, að það hefði frekar verið blásið að því hjá sjómönnum en útgerðarmönnum, af því að að sjómönnum er betri aðgangur.

Hv. þm. benti á það í fyrri ræðu sinni, að til þess að bæta úr þessu þyrfti að skipuleggja þetta. Það hefir verið gert, og misjafnlega spáð fyrir árangrinum. Allir spádómarnir hafa rætzt. (SÁÓ: 13 kr. jafnaðargjald á tunnu var borgað). Það er ómögulegt að miða við krónur, því að það er hægt að greiða hátt verð með fyrirsjáanlegum skaða. Ríkið gæti keypt afurðir af mönnum, svo að þeir bæru mikið úr býtum í svipinn, en það hlyti að koma þeim í koll fyrr eða síðar. Síldareinkasalan borgaði svo og svo mikið. Hver var útkoman? Hún var einhver sú lakasta, sem fengizt hefir á þessu sviði. Ég veit ekki, hvort sjómenn óska eftir því að fá síldareinkasöluna aftur með þeirri útkomu, sem á rekstri hennar var.

Hv. þm. var ósammála hæstv. ráðh. um það, hvað gera ætti í framtíðinni í þessu efni. Hæstv. ráðh. sagði, að það ætti að bæta upp með því að fella niður tollinn, því að það kæmi fram í betri afkomu þeirra, sem tollinn greiddu. Þetta var alveg rétt. En hv. 4. þm. Reykv. segir, að ekki sé hægt að gera þetta í framtíðinni, en þá koma sjómenn og biðja um styrk í öðru formi.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um, að það væru útgerðarmennirnir, sem græddu. Það væri æskilegt, að þetta væri rétt, því að afkoman er vitanlega bágborin, ef enginn græðir neitt. En hvað segir hv. þm. sjálfur um þetta? Hann segir, að skipunum fækki stöðugt. Ætli það stafi af því, að menn hafi misst lystina á því að græða? Hversvegna eru ekki keyptir nýir togarar? Hvers vegna kaupum við ekki ný skip? Af því að menn græða ekki á því. Þeir vilja því ekki halda áfram að gera út. Hver einasti atvinnuvegur, sem græðir, fer vaxandi. Það er öruggur mælikvarði á þetta. Sönnun þess, að útgerðin er ekki rekin með gróða, er fækkun skipanna. Þetta er niðurstaðan af rannsóknum n. þeirrar, sem fengið hefir þetta mál til athugunar. Skýrslur hennar sýna, að svo stórfelld töp hafa orðið á útgerðinni í seinni tíð, að auður sá, sem safnaðist 1928 —1929, er genginn til þurrðar. Skuldir safnast í bankana. Það getur verið rétt, að ekki sjái ennþá á þeim, sem lifa á útgerðinni. Það stafar af því, að þeir taka lán. En þjóðfélagið verður aldrei byggt á þeim grundvelli. Margir menn lifa umfram efni. Það eru fleiri en útgerðarmenn. Það sannar ekkert, að þeir græði á fyrirtækjum sínum. Það er einmitt frekar sönnun fyrir því, að útgerðin sé rekin með töpum. Þeir halda áfram að gera út, sem eiga tækin, því að það er ekki gott að losna við þau, og þau eru dýr, jafnvel þótt þau standi alveg kyrr.

Það er trú hjá hóp manna, að útgerðin sé rekin með hagnaði. Það er undarlegt, hve illa gengur að fá þessa menn til þess að leggja út í slík fyrirtæki! Jafnvel þótt þeir fái góð lán, gera þeir það ekki. Þar, sem útgerðin er rekin af því opinbera, eins og t. d. í Hafnarfirði, sjá menn, að gróðinn er ekki mikill. Sú útgerð er að vísu mörgum til góðs, en arðurinn af henni er ekki mikill. Vafalaust myndi hver maður óska þess, að það væri satt, sem hv. þm. sagði, að mörg útgerðarfélög væru rekin með gróða.

Hv. þm. minntist á það, hvort nokkur pólítísk spilling fylgdi því, að flokkar gengju frá skoðun sinni á víxl, til þess að kaupa sér hagsmuni. Ég álít það vera spillingu. Það er almennt kallað hrossakaup. Þau hafa aldrei þótt nein fyrirmynd. Það er pólitísk spilling, þegar stjórnarflokkur kemur sér að völdum, með því að gera hrossakaup. En að löggjafarþing eigi ekki að vera annað en formsatriði, eins og hv. þm. sagði, er alveg rangt.