10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég býst varla við, að sú ósk hv. flm. rætist, að allir flokkar þingsins verði sammála um þetta frv. Ekki af þeirri ástæðu, að þetta eigi að verða deilumál á milli flokka. Eins og kunnugt er, var bæjarstjórinn á Ísafirði knúinn af bæjarstj. til að segja af sér; það liggur því fyrir það vandaspursmál, sem bæjarstjórnin þarf að leysa, að kjósa sér annan bæjarstjóra. Í frv. þessu er engin lausn á því vandamáli. Þar eru aðeins ákvæði, sem heimila atvmrh. að láta fara fram bæjarstjórnarkosningu á ný. En líkur eru hverfandi litlar fyrir því, ef kosið er strax aftur, að það skapist nýr meiri hl. í bæjarstjórninni.

Það er alþekkt hér í bæjum, að bæjarstjóri hefir engan hreinan meiri hl. að baki sér. T. d. hefir það verið svo á Akureyri í langa tíð, að flokkarnir hafa orðið að koma sér saman um bæjarstjóra. Var þetta mál leyst þar á síðastl. vetri á þennan hátt, án nokkurra vandræða.

Ég undrast það, að hv. þm. skuli vegna þessa árekstrar á Ísafirði flytja þessa breyt. fyrir allt landið, þar sem hvergi er um nein vandræði að tala í þessum efnum nema á Ísafirði.

Annars vildi ég skjóta því til hv. þm., hvort hann vill ekki bara fá alveg sérstaka löggjöf fyrir Ísafjörð. Það er ýmislegt, sem bendir til þess, að þess muni vera þörf, og vil ég skjóta þessu fram þeirra n. til athugunar, sem væntanlega fjallar um málið.