10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég held, að hv. flm. hljóti að játa, að sú ógæfa, sem hann hugsar sér að bjarga bæjarfélögunum frá með þessu frv., kemur strax aftur. það kemur þegar í ljós, ef kosning hefir misheppnazt. Þýðir því ekki að tala um einhvern hluta kjörtímabils, sem eftir sé, því það verður allt eftir. Hér er því að ræða um heilt kjörtímabil. Því eru engar líkur til þess, að hreinn meiri hl. fengist þegar kosið er strax aftur, og stendur óhrakið allt, sem ég hefi um það sagt. Flokkaskipting í bæjum er nú orðin þannig, að hæpið er, að nokkur flokkur fái hreinan meiri hl. Þó sósíalistar á Ísafirði þykist hafa orðið hart úti, þá er engin von fyrir því, að þetta frv. verði þeim til hjálpar. Ég játa, að það er ekki fullkomið lýðræði, þegar ójöfn tala kjósenda fær jafna tölu fulltrúa, en það er ekki hægt að girða fyrir alla smámuni, ekki hægt að komast nær því rétta. Þó að aðalflokkarnir á Ísafirði séu dálítið mismunandi stórir, þá verða þeir að hafa sína fjóra fulltrúa hvor. Mér er a. m. k. ekki ljóst, hvernig á að koma í veg fyrir, að þeir hafi það.

Ég held, að hv. þm. Ísaf. hafi einu sinni ekki verið eins hræddur við jafnar tölur og hann er nú, þegar hann og hans flokkur beitti sér fyrir því að afnema oddamann í bæjarstj. Ísafjarðar. — Ég legg ekkert kapp á það, hvenær þetta frv. deyr, og ég á bágt með að vera grimmur við slíka vanburða aumingja, en ef á að reyna að bjarga lífinu eitthvað lengur í þessu óburðuga fóstri, þá vil ég benda hv. n. á það, að réttara muni að láta bæjarstj. fremur en atvmrh. ákveða, hvort kosning á að fara fram eða ekki.