27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Magnús Jónsson:

Af því að ég heyri, að hv. 4. landsk. er fulltrúi flm. frv. hér í hv. d., vildi ég gjarnan fá hjá honum skýringu á því, hver væri íslenzka þýðingin á annari greininni í frv. Ég hefi nú setið við að lesa hana undir umr., en ómögulega getað komizt að, hvert efni hennar væri. Ég vildi, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa hana upp, svo hv. þdm. geti heyrt, að það er ekki hlaupið að því að skilja hana:

„Nú hefir í kaupstað, þar sem kosinn er bæjarstjóri, eigi náðst meiri hluti bæjarfulltrúa fyrir kosningu bæjarstjóra, þannig að bæjarstjóri sé í andstöðu við meiri hluta bæjarstjórnar —“. Það er bæjarstjóri, bæjarfulltrúa, bæjarstjórnar, bæjarstjóri. Ég hefi aldrei heyrt annan eins samsetning á æfi minni. Ég þykist vita, að eitthvað sé meint með þessari grein, og ef maður vissi það fyrirfram, getur skeð, að maður gæti skilið það, sem meint er, en annars lítur þetta út eins og nokkurskonar talæfing eins og „Stebbi stóð á Strönd“ — til þess að æfa mann í að bera fram óþægileg orð. En af því ég þykist vita, að eitthvað sé meint með gr., vildi ég biðja fulltrúann að þýða hana fyrir mig á dönsku, ef ekki vill betur til.