03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér að tilgreina ástæðurnar fyrir því, að ég mun greiða atkv. gegn frv. þessu. Það er þá fyrst og fremst af því, að ég tel það þurfa mikilla leiðréttinga við, sökum þess, hve álappalegt það er að formi. Má þar fyrst nefna upphaf 2. gr. Þar segir svo: „Nú hefir í kaupstað, þar sem kosinn er bæjarstjóri, eigi náðst meiri hluti bæjarfulltrúa fyrir kosningu bæjarstjóra, þannig að bæjarstjóri sé í andstöðu við meiri hluta bæjarstjórnar“. Slíkt orðalag sem þetta hlýtur að mega laga, og ég tel, að n. beri hreint og beint skylda til þess. Ég fæ ekki heldur betur séð en að mótsetning sé í greininni. Ef atkvæðin eru jöfn, þá á að varpa hlutkesti. Það er að öllu leyti lýðræðisleg aðferð. En jafnmargir eru með báðum, þá hefir kosningin sýnt, að báðir hafa jafnan rétt, og á því að láta hendinguna ráða. Ég sé því ekki, hversvegna á að brjóta þessa meginreglu eingöngu í þessu eina tilfelli.

Þá vil ég segja það, að ég álít ekki heppilegt að fyrirskipa pólitíska flokka í sveitar- og bæjarstjórnum. Það hefir verið svo til skamms tíma yfirleitt í sveitarstjórnum og flestum bæjarstjórnum, að heldur hefir verið reynt að forðast pólitíska flokka, — landsmálaflokka —, sem koma til greina á Alþingi, að þeir verði alráðandi í sveitar- og bæjarstjórnarmálefnum, og það er augljóst, að þó að bæjarstjórinn hafi töluvert mikið vald í bæjarmálefnum, þá er hann fyrst og fremst framkvæmdarstjóri bæjarstj., og sé um nokkra lipurð að ræða, þá getur vel tekizt samstarf þó að bæjarstjórinn hafi ekki fullkominn meiri hluta bæjarstj. á bak við sig. Það er óskaplegt að þurfa að steypa bæjarfélögunum út í kosningar, ef bæjarstjórinn hefir ekki meiri hl. á bak við sig í bæjarstj., og þá getur atvmrh. gripið inn í og fyrirskipað nýjar kosningar.

Þá álít ég, að tilefnið til þessa frv. sé algerlega óboðlegt hæstv. Alþ. Ef það ætti jafnan að grípa inn í með almennri löggjöf, þó að einstakt tilfelli komi fyrir einhversstaðar á landinu, þá væri það sannarlega að æra óstöðugan, svo það yrði ómögulegt fyrir Alþingi að sinna öllu slíku. Til þess að gera slík ákvæði sem þessi, verða að hafa komið í ljós greinileg vandræði, og það víðar en í einu tilfelli.

Þá vil ég aðeins tilgreina 6. ástæðuna móti þessu frv., að mér finnst harðari kröfur vera gerðar til bæjarstjórnanna heldur en Alþingis. Það er öllum kunnugt, að það getur vel setið á Alþingi stjórn, sem ekki hefir meiri hl., á bak við sig, ef hún nær samt sem áður á málefnagrundvelli samkomulagi um sín aðalstefnumál. Þá getur hún setið, þó að hún hafi ekki meiri hl. á bak við sig í pólitískum flokkum, og í öðru lagi, að þó að stjórnin komist í minni hl., þá er það hún sjálf, sem ræður, hvenær hún rýfur þing. Það er enginn annar, sem getur gert það. Hún getur gripið inn í og rofið þing, en þing er ekki rofið af sjálfu sér, þó að stj. komist í minni hl. Stj. verður að gera það. Ef stj. ætlar að þráast við að gera það, þá hefir þingið ekki annað ráð en að fella fyrir stj. svo mikið af áhugamálum hennar, að hún treysti sér ekki til þess að sitja, eða þá að samþ. vantraust á stj. og neyða hana þannig til að fara. Þetta sama ráð hafa bæjarstjórnirnar; svo framarlega sem bæjarstjórinn kemst í harðvítuga andstöðu við meiri hl. bæjarstj., þá getur bæjarstj. gert honum lífið svo erfitt, að hann geti ekki setið áfram. En ef þetta ætti að vera hliðstætt, þá ætti bæjarstjórinn að hafa vald til þess, annaðhvort að fara eða rjúfa bæjarstj., þ. e. a. s. að stofna til nýrra kosninga. En hitt, að annað vald geti gripið inn í, hvort sem bæjarstj. vill eða ekki, finnst mér allt of hart. En í frv. er það orðað þannig: „getur atvmrh. þá ákveðið“, m. ö. o., það er gefið á vald atvmrh., hvort það er gert eða ekki. Ef atvmrh. er hlynntur þessum bæjarstjóra, sem er í minni hl., þá getur hann haldið honum eilíflega í þessari stöðu, hvað sem bæjarstj. segir. Það er lagt í vald atvmrh. eins og hann er í það og það skiptið að framkvæma þetta verk. Mér finnst þess vegna vera svo margt, sem mælir á móti því að samþ. þetta frv. Þó að komi fyrir í einu einasta tilfelli í einni bæjarstj., að bæjarstjóri hafi ekki hreinan meiri hl. á bak við sig, að Alþingi þjóti þá til og setji lög um það, og það svona líka lagleg, það álít ég ekki ná nokkurri átt.

Ég verð að segja um svona frv. eins og þetta, sem snertir jafnmikið bæjarstjórnir og hag bæjarfélaga, að það sé í raun og veru ósæmilegt að afgr. það án þess að spyrja bæjarstjórnir almennt um þeirra álit á því. Ég álít ófullnægjandi að vísa eingöngu til álits bæjarstj. Ísafjarðar, því að hana varðar ekki meira um þetta en aðrar bæjarstjórnir. En það er augljóst mál, að ef frv. verður samþ., þá getur ófrið af því leitt, og mér finnst því óforsvaranlegt að afgr. það án þess að fá álit bæjarstjórna um svona löggjöf.

Ég vil svo að lokum skjóta því til þeirrar n., sem frv. fer til, ef það verður samþ. við þessa umr., sem ég tel, að alls ekki eigi að gera, þá vilji n. sýna þessu máli þann sóma að lagfæra það, ekki aðeins að máli, heldur líka að efni til.