03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Magnús Guðmundsson:

Ég þarf ekki að tala nema stutt, en ég vildi gjarnan heyra, hvað hæstv. atvmrh. segir um skilninginn á þessu frv. Ég skil það þannig, að atvmrh. hafi heimild til þess að láta fara fram kosningu eins oft og hann vill þegar svo stendur á, að bæjarstjórinn er ekki kosinn af meiri hl. bæjarstj. eða hefir ekki meiri hl. hennar á bak við sig. Það hefir komið fram dálítill efi um þetta í umr., og væri gott að heyra, hvað hæstv. núv. atvmrh. segði um þetta. Það leiðir líka af tilgangi frv., að svo verði að vera, en í sambandi við þetta vil ég spyrja: Hvernig stendur á því, að ekki er reynt að kjósa nýjan bæjarstjóra, fyrst þetta starf er laust? Mér skildist hv. frsm. meiri hl. gefa það í skyn, að nú væri komið samkomulag milli tveggja flokka um að kjósa bæjarstjóra. Hv. þm. gaf það fyllilega í skyn, að það gæti verið, að sósíalistar gætu komizt að samkomulagi við varamann kommúnista, og ég hefi einmitt heyrt það frá Ísafirði, að jafnaðarmenn gætu komið sér saman við varamann aðalmanns kommúnista í bæjarstj. um kosningu á bæjarstjóra.

Ég held, að tilganginum með þessu frv. væri náð, ef bæjarstjórakosning færi nú fram, og það jafnvel þótt hlutkesti yrði að skera úr, ef aðeins hlutkestið færi á þann veg, að það yrði sósíalistum í vil. Þá mundu þeir verða ánægðir. Frv. er eingöngu komið fram af því að sjálfstæðismaður varð fyrir kjöri í hlutkestinu. Þeir sósíalistar geta ekki hugsað sér að búa við það ástand, sem forsjónin skapaði þeim, af því að þeir vita, að nú hafa þeir bolmagn hér á þingi til að fá þessu breytt.

Í umr. hefir verið sneitt fram hjá því, sem ég talaði um lýðræðið á Ísafirði viðvíkjandi þingsetu bæjarstjórans, er honum var neitað um að fara á þing og neitað um að setja mann í sinn stað til þess að gegna sínu starfi á meðan. (SÁÓ: Honum var ekki neitað um það). Ég veit ekki, hvað það er annað en neitun, að þegar hann bað um að mega setja ákveðinn mann í sinn stað, þá er það fellt með jöfnum atkv., en skömmu á eftir kýs meiri hl. í bæjarstj. þennan sama mann til þess að gegna þessu starfi. Hvað er þetta annað en neitun? Það er bara óbein neitun.