05.11.1934
Efri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Auðunn Jónsson:

Út af ummælum, sem fram komu við fyrri hl. þessarar umr., að bæjarstj. Ísafjarðar hefði ekki neitað mér um þingsetu, vil ég segja nokkuð orð. Það má e. t. v. leggja tvennskonar skilning í þetta mál, en það ætti þó öllum að vera ljóst, að ekki er hægt að skilja við bæjarstjórastörf án þess að annar sé settur í staðinn. Ég tel bæjarstj. hafa neitað mér um þingsætið eða bæjarstjórastöðuna með því að neita mér um að setja mann í bæjarstjórasætið, og jafnframt neitað að benda á mann til þess að rækja starfið á mína ábyrgð í fjarveru minni. Ætlaði ég þó að borga þessum manni fyrir að vinna mín störf í skrifstofunni. Bæjarstj. benti ekki heldur á annan mann til starfsins en þann, sem ég hafði vísað á, enda þótt ég óskaði þess. Því álít ég, að þessir menn hafi beinlínis viljað koma í veg fyrir, að ég sæti á þingi eða héldi áfram að vera bæjarstjóri.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að þessi breyt. væri meira í lýðræðisáttina en sú skipun, sem nú er. Ég held, að svo sé ekki. Hann sagði, að svo gæti farið við uppkosningu, að einhver flokkur sæi sig neyddan til að slá sér saman við annan flokk, þótt óskyldur væri, til þess að forðast allt of margar uppkosningar. Ef þetta verður ofan á, þá er verið, eins og hv. 2. þm. Rang. benti á, að kúga fólkið til að breyta atkv. síinu, og er því breytingin frekar til að hnekkja lýðræðinu heldur en hitt.

Það er nokkur munur á bæjarstjóra og ríkisstjórn. Þó ríkisstj. sé bundin við fjárl. og eigi að fara eftir þeim, þá er það nú svo í reyndinni, að ríkisstj. fer með fjárveitingar milli þinga. En bæjarstjóri borgar ekki út annað en það, sem samþ. er af bæjarstj. eða ákveðið af vissum nefndum bæjarstj. Það getur því vel gengið, að bæjarstjóri sé ekki samþ. bæjarstj., og þarf ekki að leiða til samvinnuslita, þó að greini eitthvað á. Mig hefir oft greint á við meiri hl. bæjarstj. á Ísafirði, t. d. um styttingu vinnutímans og hækkun kaups í atvinnubóta- og bæjarvinnunni. Annars hefir ekki orðið ágreiningur í öðrum málum, nema um till. meiri hl., er ganga út á fjárveitingar utan fjárhagsáætlunar; þeim hefi ég auðvitað lagt á móti, þar sem fyrirsjáanlegt er, að fjárhagsáætlunin er samin með tugi þús. kr. greiðsluhalla. Ég hefi þó ekki fellt úr gildi þessar samþykktir og ekki skotið þeim til ráðh., sem ég þó hafði heimild til. Það fer alltaf svo, og getur alstaðar farið, að bæjarstjóri lendi í ósamræmi við meiri hl. bæjarstj., ef hann hefir sjálfstæða skoðun eða er ekki viljalaust verkfæri meiri hl. Ég endurtek það, sem ég og aðrir hafa sagt, að þessar breyt. færa ekki neina bót, heldur skapa glundroða, og leiða ekki til annars en að hnekkja lýðræðinu.

Ég hefi bent á aðra leið, að bæjarbúar velji sjálfir bæjarstjóra; það væri aukið lýðræði, og þá fengist sá af umsækjendum, sem bæjarbúar treysta bezt á hverjum tíma.