11.10.1934
Neðri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Flm. (Gísli Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frv. Það er shlj. till., sem flutt var á síðasta þingi sem brtt. við frv. ríkisstj. um að láta reisa síldarverksmiðju. Eins og sjá má af frv., er þarna rekin síldarverksmiðja um 10 ára skeið af útlendingum. Hreyfingin um það, að ríkið taki að sér rekstur verksmiðjunnar, er vitanlega komin að norðan, frá íbúunum á Raufarhöfn. Þorpið á Raufarhöfn hefir nú aðallega myndazt utan um þessa verksmiðju; þar eru fremur litlir aðrir atvinnumöguleikar. Það yrði þess vegna ákaflega mikill hnekkir fyrir þorpið, ef atvinnurekstur þessi legðist niður. Hinsvegar hefir verið — og er ennþá — hætta nokkur á því, að verksmiðjueigendur færu að kippa að sér hendinni um reksturinn. Og það tel ég tvímælalaust skyldu þings og stjórnar, að hafa eftirlit með því, að atvinnurekstur þessi leggist ekki niður þarna á staðnum, til tjóns fyrir almenning.

En þó að horfurnar séu þannig á þessum rekstri, hygg ég óhætt að fullyrða, að síldarbræðsla á Raufarhöfn muni í sjálfu sér vera sæmilega álitleg fyrir hvern, sem hana vill reka, þó að svona standi sakir hjá þessum útlendingum nú. Það var t. d. svo síðastl. sumar, að síldaraflinn framan af vertíðinni var aðallega á Þistilfirði og kringum Sléttu og á Axarfirði, og það er einmitt mjög oft svo. Og ég vil alveg sérstaklega benda á það, að ég hygg það sé mjög hagkvæmt, sérstaklega fyrir hin minni skip, sem síldveiði stunda, að þarna sé síldarbræðslustöð, því að það er tilfinnanlegt fyrir skipin að þurfa að fara alla leið austan af Þistilfirði t. d. og vestur til Siglufjarðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira, en óska eftir, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og sjútvn. Að því leyti, sem ég get gefið n. upplýsingar eða útvegað þær, er ég fús til þess.