27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég mun greiða atkv. gegn þessu frv., eins og ég greiddi í fyrra atkv. gegn kaupum ríkisins á Flateyrarverksmiðjunni. Ég tel það ranga aðferð, að ríkið kaupi verksmiðjur úr eign einstaklinga og komi þannig rekstrinum yfir á ríkið. Væri nokkur ástæða til að ætla, að verksmiðja þessi hætti störfum að öðrum kosti, gæti verið rétt, að ríkið gengi í kaupin. En ég veit ekki til þess, að nokkrar líkur séu til, að eigandi verksmiðjunnar ætli sér að hætta rekstri hennar. Hitt er mjög líklegt, að hann vilji selja verksmiðjuna, og gerir það vafalaust, ef heimildin verður veitt. Hér er því verið að gera leik að því að velta kostnaði yfir á ríkið, og það er því fráleitara, sem hér er um verksmiðjuræfil að ræða, sem þarfnast myndi dýrra og stórkostlegra endurbóta, ef hún á að verða til frambúðar. Ég hefði viljað heyra færð sterkari rök að því en gert hefir verið, að verksmiðjan ætlaði sér að hætta störfum, áður en svona till. er borin fram. En hóti verksmiðjueigandinn hinsvegar að hætta, ef ekki verði af kaupunum, er vandinn ekki annar en sá, að beita þeirri aðferð, sem höfð var við Flateyrarverksmiðjuna, að taka hana eignarnámi.